Endurnýjun auglýsingar um friðlandið Flatey á Breiðafirði

Austurhluti Flateyjar á Breiðafirði var friðlýstur árið 1975 vegna fuglaverndar. Náttúrfegurð eyjarinnar er mikil og fuglalíf óvenju fjölskrúðugt. Friðlandið nær yfir austurhluta eyjarinnar ásamt eyjum og hólmum sunnan við Flatey.

Í Flatey hefur um langt skeið verið náið samspil manns og náttúru þar sem nýting náttúruauðlinda hefur farið fram með sjálfbærni að leiðarljósi. Verndargildi svæðisins felst fyrst og fremst í að svæðið er búsvæði og varpsvæði mikilvægra fuglastofna á íslenskan og alþjóðlegan mælikvarða, þ.m.t. sjaldgæfra varpfugla á Íslandi og fugla sem eru á válista Alþjóða Náttúruverndarsamtakanna (IUCN).

Í friðlandinu er einstaklega fjölbreytt fuglalíf og þar er varpsvæði þórshana sem er sjaldgæfur fugl á landsvísu og er á válista Náttúrufræðistofnunar Íslands sem tegund í hættu. Einnig verpa þar ábyrgðartegundir Íslendinga, s.s. kría og lundi. Þá er mikið æðarvarp innan marka friðlandsins. Á svæðinu eru miklar leirur með fjölbreyttu lífríki sem eru mikilvægar til fæðuöflunar fyrir margar tegundir fugla. Vísindalegt gildi svæðisins er mjög hátt og er fuglalíf vaktað og rannsakað þar reglulega.

Árið 2015 var ákveðið að hefjast handa við endurskoðun auglýsingar fyrir friðlandið í Flatey samhliða gerð stjórnunar- og verndaráætlunar fyrir svæðið. Í samstarfshópi um endurskoðunina áttu sæti fulltrúar Umhverfisstofnunar, Reykhólahrepps, Framfarafélags Flateyjar og ábúendur. Auk þessa var haft samráð við Ríkiseignir.

Ástæða endurskoðunarinnar er þríþætt, en ekki er nægilega skýrt kveðið á um markmið verndunar og verndargildi svæðisins í núgildandi auglýsingu, varpsvæði sjaldgæfra fuglategunda hefur stækkað og ástæða þótti til að stækka friðlandið sem því nemur til að tryggja verndun varpsvæðis fuglanna og loks var það mat sérfræðinga að lokunartími friðlandsins samkvæmt auglýsingu frá árinu 1975 væri lengri en þörf er á. Samhliða endurskoðun þessara atriða er auglýsing um friðlýsingu svæðisins uppfærð til samræmis við nýjar auglýsingar um friðlýst svæði.

Markmið endurnýjaðrar friðlýsingar sem nú er lögð fram til kynningar er að vernda sérstætt og fjölbreytt lífríki Flateyjar og búsvæði því tengd, einkum varp fágætra fuglategunda. Friðlandið hefur mikið vísinda- og fræðslugildi og er vel þekkt meðal fuglaáhugafólks. Markmið endurnýjaðrar friðlýsingar er einnig að tryggja rannsóknir og vöktun á lífríki svæðisins, með áherslu á búsvæði og afkomu varpfugla, og að tryggja fræðslu um fuglalífið.

Samhliða endurskoðun auglýsingarinnar um friðland í Flatey hafa verið unnin drög að stjórnunar- og verndaráætlun fyrir friðlandið sem jafnframt eru lögð fram til kynningar.

Frestur til að skila inn ábendingum og athugasemdum við endurnýjaða auglýsingu fyrir friðlandið í Flatey er til 22. júní 2017. Ábendingum má skila inn á vefnum eða senda til Umhverfisstofnun, Suðurlandsbraut 24, 108 Reykjavík.

Nánari upplýsingar veita Hildur Vésteinsdóttir, hildurv@ust.is, og Hákon Ásgeirsson, hakon.asgeirsson@ust.is,  eða í síma 591-2000.

Tengd skjöl

Mynd sem fylgir - Rauði listinn

Rauði listinn

Veita þarf ákveðnum friðlýstum svæðum á Íslandi sérstaka athygli og aðhlynningu.
Meira