Akurey í Kollafirði

Áform um friðlýsingu Akureyjar í Kollafirði

 Umhverfisstofnun, ásamt Reykjavíkurborg, kynnir hér með áform um friðlýsingu Akureyjar í Kollafirði sem friðland, í samræmi við 49. gr. náttúruverndarlaga nr. 60/2013.

 Akurey er lág og vel gróin eyja í Kollafirði, um 6,6 hektarar að stærð, norðaustan við Seltjarnarnes. Í Akurey verpa ýmsir sjófuglar eins og lundi, sílamáfur, æðarfugl og teista, og er lundi langalgengastur, 15.000 pör. Akurey flokkast sem alþjóðlega mikilvæg sjófuglabyggð þar sem viðmiðið er ≥10.000 pör. Markmiðið með friðlýsingu Akureyjar er að vernda þetta alþjóðlega mikilvæga fuglasvæði í Reykjavík og sér í lagi varpstöð lunda sem er á válista um fugla skilgreindur sem tegund í bráðri hættu. Einnig er markmiðið að vernda lífríki í fjöru og á grunnsævi.
 Tillaga að friðlýsingarmörkum miðast hnitsett mörk skv. hnitaskrá og birt eru á korti.

Áform um friðlýsingu eru kynnt í samræmi við 2. mgr. 38. gr. náttúruverndarlaga en gert er ráð fyrir að svæði sem ekki eru á framkvæmdaáætlun náttúruminjaskrár skulu kynnt sérstaklega. Að kynningartíma loknum tekur Umhverfisstofnun saman umsögn um framkomnar athugasemdir við áformin og skilar til umhverfis- og auðlindaráðherra. Að þeim tíma liðnum munu Umhverfisstofnun og Reykjavíkurborg vinna drög að friðlýsingarskilmálum og leggja fyrir rétthafa lands og aðra sem hagsmuna eiga að gæta. Að því loknu mun stofnunin auglýsa fyrirhugaða friðlýsingu í þrjá mánuði þar sem öllum gefst kostur á gera athugasemdir við framlagða tillögu.

 Í auglýsingu um friðlýsingu er heimilt að kveða á um aðgerðir sem nauðsynlegar eru til að hlúa að og mæta þörfum tegunda sem verndin beinist að eða til að viðhalda búsvæðum eða vistgerðum. Takmarka má umferð um friðlönd á vissum tíma árs eða á tilteknum stöðum ef það er nauðsynlegt til að ná markmiðum friðlýsingar. Jafnframt er m.a. heimilt að kveða nánar á um takmarkanir sem leiða af friðlýsingunni, m.a. á umferðarrétti, notkun veiðiréttar og framkvæmdum. Þá er jafnframt heimilt að ákveða að afla skuli leyfis Umhverfisstofnunar til athafna og framkvæmda sem áhrif geta haft á verndargildi viðkomandi svæðis.

 Frestur til að skila athugasemdum við áform Umhverfisstofnunar og Reykjavíkurborgar er til og með 2. janúar 2019. Athugasemdum má skila á hér að neðan, með tölvupósti á netfangið ust@ust.is eða senda með pósti til Umhverfisstofnunar, Suðurlandsbraut 24, 108 Reykjavík.

 Frekari upplýsingar veita Svava Pétursdóttir (svava.petursdottir@ust.is) og Þórdís Vilhelmína Bragadóttir (thordis.bragadottir@ust.is) með tölvupósti eða í síma 591-2000.

 
Upplýsingar
Skrár

*Stjörnumerkta reiti þarf að fylla út.

Mynd sem fylgir - Rauði listinn

Rauði listinn

Veita þarf ákveðnum friðlýstum svæðum á Íslandi sérstaka athygli og aðhlynningu.
Meira