Hættumerki

Borði sem sýnir nýju og gömlu hættumerkin sé músarbendli komið fyrir yfir borðan

Á hverju ári valda efni sem notuð eru í heimahúsum fjölda slysa. Hægt er að koma í veg fyrir þau með því að kynna sér merkingar á vörum sem innihalda hættuleg efni, en þar má finna upplýsingar um eðli hættunnar og varúðarráðstafanir sem hægt er að grípa til, ef eitthvað fer úrskeiðis.

Athugaðu að eftir þann 1. júní 2017 má eingöngu nota nýju hættumerkin við merkingar á hættulegum efnum, en þau byggjast á alþjóðlegu, samræmdu kerfi sem verið er að innleiða á heimsvísu.

Það er mikilvægt að geyma hættumerktar vörur þar sem börn ná ekki til og ekki nálægt matvælum, dýrafóðri, lyfjum eða álíka vörum. Þegar búið er að nota vöruna þá þarf förgun innihalds og umbúða að vera í samræmi við reglur og má finna ráðleggingar um það á merkimiðanum. Þar eru einnig gefnar ráðleggingar um viðbrögð við óhöppum og slysum.

Ef þú finnur til langvarandi óþæginda sem rekja má til meðferðar á vöru sem inniheldur hættuleg efni skaltu leita til læknis eða Eitrunarmiðstöðvar í síma 543-2222 og hafa þá umbúðir eða merkimiða vörunnar við hendina. Á heimasíðu Eitrunarmiðstöðvar er að finna góð ráð til að koma í veg fyrir eitranir.

Mælt er með því að fara kerfisbundið í gegnum öll herbergi á heimilinu og huga að því hvar hættuleg efni og lyf eru geymd. Hættumerkin eru 9 talsins og ekki er alltaf auðvelt að átta sig á því fyrir hvað þau standa. Kynntu þér málið, þá áttu auðveldara með að taka upplýsta ákvörðum um vöruval og meðhöndlun á vörum sem innihalda hættuleg efni.

Fimm góð ráð

  • Geymdu hættuleg efni alltaf í upprunalegum umbúðum.
  • Fylgdu leiðbeiningum á merkimiðanum.
  • Varastu að hættuleg efni komist í snertingu við húð, augu eða lungu.
  • Geymdu hættumerktar vörur þar sem börn ná ekki til.
  • Hugsaðu um umhverfið áður en þú fargar hættumerktum vörum.
Samansett mynd með öllum hættumerkjunum


Þekkir þú merkin? Smelltu á myndina hér til hliðar til að taka skyndipróf.

Myndin sýnir rauðan ramma um hvítan flöt með upphrópunarmerki fyrir miðju

Efni sem geta ert húð og augu, valdið ofnæmisviðbrögðum í húð, ert öndunarveg, valdið syfju eða svima. Getur verið skaðlegt við inntöku, snertingu við húð og innöndun. Getur skaðað umhverfið

Dæmi

Efni til að fjarlægja útfellingar, salernishreinsir, þvottaefni, frostlögur og sumar límtegundir.

Varúðarráðstafanir

Allt eftir hættunni hverju sinni þá mælt er með notkun hlífðarhanska og hlífðargleraugna. Forðist inntöku,  innöndun og snertingu við húð og augu.

 

Hætta

Sumar vörurnar valda ertingu í öndunarvegi við innöndun. Aðrar innihalda lífræn leysiefni sem valda syfju og svima við innöndun. Gufur geta valdið höfuðverk og vímu. Inntaka getur verið hættuleg eða einungis valdið óþægindum og ert slímhúð í munni og maga. Sumar vörurnar geta valdið ofnæmisviðbrögðum í húð eftir snertingu á meðan aðrar geta valdið ertingu í húð og útbrotum. Komist varan í augu geta það orsakað ertingu.

Myndin sýnir rauðan ramma um hvítan flöt. Fyrir miðju sést vökvi tæra bæði málm og hendi

Efni sem valda húðætingu, alvarlegum augnskaða eða tæra málm.

Dæmi

Ediksýra, saltsýra, ammóníak, stíflueyðir, salernishreinsir.

Varúðarráðstafanir

Klæðist hlífðarhönskum og hlífðargleraugum. Forðist inntöku, innöndun og snertingu við húð og augu.

 

Hætta

Innöndun gufu/úða er ætandi fyrir öndunarveg. Innöndun getur valdið brunatilfinningu í munni og hálsi, ásamt hnerrum, hósta, öndunarerfiðleikum og brjóstverkjum. Kyngir þú vörunni getur það valdið bruna í munni, vélinda og maga. Slíkt veldur sársauka í munni, hálsi og maga og framkallar erfiðleika við kyngingu og blóðug uppköst. Varan hefur húðætandi áhrif og veldur brunaverkjum, roða, blöðrum og brunasárum. Komist efnið í augu getur það valdið alvarlegum brunasárum, sársauka, táramyndun og krampa í augnlokum. Hætta á alvarlegum augnskaða og sjónmissi.
Myndin sýnir rauðan ramma um hvítan flöt þar sem eldur er fyrir miðju

Eldfimir vökvar og gufur frá þeim, gas, úðaefni og þurrefni.

Dæmi

Eldsneyti á vélar, eldsneyti á tæki til matseldar, etanól, naglalakkseyðir, flöskur með fljótandi gasi og úðabrúsar með fljótandi drifgasi.

Varúðarráðstafanir

Forðist hita og loga. Ekki reykja nálægt þessum vörum. Haldið umbúðum vel lokuðum og geymið á köldum og vel loftræstum stað. Mælt er með notkun hlífðarhanska og hlífðargleraugna ef hætta er á að efni slettist í augu.

 

Hætta

Þessar vörur eru það eldfimar að í þeim kviknar ef þær komast í snertingu við opinn eld, neista og/eða hita. Skæður eða bráður bruni getur orðið raunin. Sumar vörur gefa frá sér eldfimt gas þegar þær komast í snertingu við vatn eða valda sjálfsíkveikju í lofti. Ef eldur kviknar, slökkvið þá með dufti, froðu, koltvísýringi, eldteppum eða vatnsúða. Ekki beina vatni að eldinum því þá breiðist hann bara út. Flytjið vöruna frá hættusvæðinu ef slíkt er mögulegt án áhættu.

Myndin sýnir rauðan ramma um hvítan flöt með visnað tré og strandaðan fisk fyrir miðju.

Efni sem er hættuleg eða skaðleg umhverfinu.

Dæmi

Terpentína, bensín, varnarefni, málning, lökk, sumar límtegundir.

Varúðarreglur

Forðist losun út í umhverfið. Hellið ekki í niðurföll nema varan sé sérstaklega ætluð til þess. Förgun innihalds og umbúða skal vera í samræmi við gildandi reglur.

 

Hætta

Þessar vörur geta verið eitraðar vatnalífverum og haft skaðleg langtímaáhrif á lífríki í vatni.

Myndin sýnir rauðan ramma um hvítan flöt með skuggamynda af brjósmynd einstaklings

Efni sem geta valdið langvarandi áhrifum eins og krabbameini, skaða á erfðaefni og skertri frjósemi. Á einnig við um efni sem valda ofnæmi við innöndun, eiturhrifum í ákveðnum líffærum og eitrun í lungum vegna ásvelgingar.

Dæmi

Terpentína, bensín, sellulósaþynnir, lampaolía og grillvökvi.

Varúðarreglur

Forðist inntöku,innöndun, snertingu við húð og augu. Klæðist hlífðarhönskum og hlífðargleraugum ef hætta er á að efnið/efnablandan slettist í augu. Umbúðum og innihaldi þeirra skal farga í samræmi við gildandi reglur.

 

Hætta

Ofnæmisviðbrögð í öndunarvegi og öndunarerfiðleikar. Gufur geta valdið höfuðverk og vímu. Inntaka getur valdið óþægindum og ert slímhúð í maga. Sumar vörur geta verið banvænar sé þeirra neytt og komist þær í öndunarveg getur það valdið því sem kallað er lungnabólga af völdum efna (e. chemical pneumonia). Snerting við sumar vörur getur valdið varanlegu heilsutjóni, til dæmis krabbameini og ófrjósemi.

Myndin sýnir rauðan ramma um hvíta flöt með logandi hnött fyrir miðju

Efni sem valda eða stuðla að bruna annars efnis.

Dæmi

Sótthreinsitöflur og -vökvar, bleikiefni, súrefnisgas notað vegna öndunarerfiðleika.

Varúðarreglur

Forðist hita og loga. Reykið ekki nálagt þessum vörum. Geymið fjarri eldfimum vörum. Mælt er með notkun hlífðarhanska og hlífðargleraugna ef hætta er á að efni slettist í augu.

 

Hætta

Eldnærandi efni eru ekki endilega eldfim sjálf en geta stuðlað að myndun elds og magnað hann. Ef eldur kviknar út frá þessum efnum skal slökkva hann með dufti, froðu, koltvísýringi, eldteppum eða vatnsúða. Ekki beina vatni að eldinum því þá breiðist hann bara út. Færið vöruna frá hættusvæðinu ef slíkt er mögulegt án þess að auka áhættu.

Myndin sýnir rauðan ramma um hvítan flöt með hauskúpu yfir krosslögðum leggjum fyrir miðju

Efni sem valda bráðum eiturhrifum við inntöku, snertingu við húð og/eða innöndun. Vörur sem bera þetta hættumerki geta valdið dauða.

Dæmi

Varnarefni, metanól, nikótínáfylling fyrir rafrettur

Varúðarreglur

Þessar vörur finnast yfirleitt ekki á hefðbundnum heimilum og eru flestar háðar sérstöku leyfi við innkaup. Við notkun og meðhöndlun þarf hugsanlega að nota öndunarbúnað, hlífðarhanska, hlífðargleraugu og sérstakan vinnufatnað. Varnarefni verður að geyma í lokuðum hirslum. Umbúðum og innihaldi þeirra skal farga í samræmi við gildandi reglur.

 

Hætta

Vörurnar eru eitraðar og geta verið banvænar við inntöku, í snertingu við húð og/eða við innöndun.

Myndin sýnir rauðan ramma um hvítan flöt með gashylki fyrir miðju

Gas í umbúðum undir þrýstingi (2 bör eða meira).

Dæmi

Flöskur með fljótandi gasi, logsuðugas, súrefnishylki.

Varúðarreglur

Gas undir þrýstingi verður að geyma á vel loftræstum stað sem varinn er gegn sólarljósi. Gangið úr skugga um að allar slöngur og tengingar séu þéttar.

 

Hætta

Athugið: Gas undir þrýstingi getur sprungið við hitun. Hættugerðin er sýnd á merkimiðanum og getur verið mjög breytileg allt eftir því hvort gasið er eldfimt, eldnærandi, eitrað eða tærandi. Gashylki getur einnig innihaldið kælt gas sem getur valdið kali.


Myndin sýnir rauðan ramma um hvítan flöt með hnött í miðri sprengingu fyrir miðju

Sprengifim efni og sprengifimir hlutir.

Dæmi

Dýnamít, skotfæri, svart púður, flugeldar.

Varúðarreglur

Haldið frá hita og opnum eldi og reykið ekki nálægt þessum vörum. Mælt er með notkun hlífðargleraugna. Kynnið ykkur reglur um geymslu og förgun.

 

Hætta

Sprenging með höggbylgju og vörpun brota. Getur valdið íkveikju í öðrum efnum.


Mynd sem fylgir - Rauði listinn

Rauði listinn

Veita þarf ákveðnum friðlýstum svæðum á Íslandi sérstaka athygli og aðhlynningu.
Meira