Eftirlit

Með gildistöku REACH-reglugerðarinnar flyst ábyrgð í efnaiðnaði frá yfirvöldum til iðnaðarins sem nú þarf að skrá og áhættumeta framleidd og innflutt efni. Það er hins vegar skylda yfirvalda að sinna eftirliti með REACH, upplýsa og fræða og beina hlutum í betri farveg ef þess er þörf. Gott, samræmt eftirlit með REACH í öllum aðildarríkjum Evrópska efnahagsvæðisins er því ein forsenda þess að markmið reglugerðarinnar nái fram að ganga. 

Á Íslandi fer umhverfisráðherra með yfirstjórn mála er varða REACH reglugerðina, sbr. 4. grein efnalaga nr. 61/2013. Umhverfisstofnun hefur umsjón með framkvæmd laganna, er ráðherra til ráðgjafar og fer með eftirlit eftir því sem kveðið er á um í lögunum, sbr. 5. gr. laganna. Í lögunum eru líka tilgreind eftirlitshlutverk heilbrigðisnefnda sveitarfélaga, Vinnueftirlits ríkisins, Tollstjóra og Neytendastofu. 

Skyldum yfirvalda í eftirliti með REACH má skipta í þrennt: 

 1. Skyldur Efnastofnunar Evrópu
  • Að stjórna og annast framkvæmd á tæknilegum, vísindalegum og stjórnsýslulegum þáttum REACH.
  • Að tryggja samræmi á milli landa.
  • Umsjón með forskráningu, skráningu, mati á skráningarskýrslum, leyfisveitingum o.fl. 
 1. Skyldur Umhverfisstofnunar (aðildarríkja almennt)
  • Að halda úti opinberu eftirlitskerfi með REACH og annarri starfsemi sem við á.
  • Að koma á fót nægjanlegum viðurlögum við brotum gegn REACH og gera ráðstafanir til að þeim sé beitt.
  • Að skila inn skýrslu á fimm ára fresti til framkvæmdastjórnar ESB um beitingu REACH, þ.e. niðurstöður opinberrar skoðunar, vöktunar, viðurlögum beitt. Fyrstu skýrslu var skilað 1. júní 2010. 
 1. Skyldur eftirlitsstofnana í aðildarríkjunum,
  • Að hafa eftirlit með að ákvæðum REACH sé fylgt af lögbundnum aðilum í landinu, þ.e. hvort fyrirtækin í landinu uppfylli sínar skyldur skv. REACH.
  • Skoða hvort efni, efnavörur og hlutir sem markaðssettir eru í landinu uppfylli sett skilyrði.
  • Sjá til þess að réttum viðurlögum sé beitt við brot á reglunum. 

Eftirlitsverkefni með REACH eru bæði samræmd verkefni sem skipulögð eru af Efnastofnun Evrópu og framkvæmd í öllum þeim löndum Evrópu sem hafa innleitt REACH en einnig verkefni sem skipulögð eru af Umhverfisstofnun og sérsniðin að íslenskum aðstæðum. 

Samræmd eftirlitsverkefni

Haustið 2009 var fyrsta samræmda eftirlitsverkefninu með REACH hleypt af stokkunum. Það kallast REACH-En-Force1 og var í yfirumsjón Efnastofnunar Evrópu. Í verkefninu könnuðu eftirlitsaðilar í hverju Evrópulandi forskráningu og skráningu efna hjá fyrirtækjum í viðkomandi landi og hvort öryggisblöð fylgdu efnum þar sem þess er krafist. Markmiðið var m.a. að meta hvort framleiðendur og innflytjendur efna á Evrópska efnahagssvæðinu væru að fara eftir ákvæðum reglugerðarinnar, auk þess að stuðla að vitundarvakningu um REACH hjá bæði iðnaði og almenningi. 

Hér á landi var verkefnið skipulagt á Umhverfisstofnun og um framkvæmd sáu fulltrúar Umhverfisstofnunar og heilbrigðiseftirlits sveitarfélaga. 11 fyrirtæki voru heimsótt og voru flest þeirra meðvituð um sínar skyldur gagnvart REACH. Ef athugasemdir voru gerðar við öryggisblöð brugðust flest fyrirtækin fljótt við og gerðu á þeim úrbætur. Hvergi þurfti að beita þvingunarúrræðum til að knýja á um úrbætur. Almennt voru fyrirtækin ánægð með eftirlitið og að fá tækifæri á að fræðast frekar um skyldur sínar. 

Umhverfisstofnun, sem og hin þátttökulöndin, skilaði inn niðurstöðunum til Efnastofnunar Evrópu sem vann úr þeim. Niðurstöðurnar sýna að iðnaðurinn í Evrópu tekur skyldur sínar alvarlega því af tæplega 1600 fyrirtækjum sem voru heimsótt þá höfðu eingöngu 38 fyrirtæki láðst að forskrá/skrá skráningarskyld efni. Hins vegar uppfylltu öryggisblöð ekki kröfur REACH hjá 293 fyrirtækjum. 

 Annað samevrópska eftirlitsverkefnið REACH-En-Force2 var unnið 2011-2012 þar sem áhersla var lögð á eftirnotendur. Árið 2013 hófst þriðja verkefnið, REACH-En-Force3, þar sem áhersla var lögð á skráningarskyldu og samstarf við tollayfirvöld. Ísland var þátttakandi í báðum þessum verkefnum.