05. febrúar 2019

Umhverfisstofnun stöðvar markaðssetningu á Bóraxi


Þann 30. janúar sl. fór fram eftirlit af hálfu Umhverfisstofnunar í fyrirtækinu Garðheimum Gróðurvörum ehf. í kjölfar ábendingar um markaðssetningu á efnavörunni Bóraxi í umbúðum sem ekki uppfylltu skilyrði efnalaga nr. 61/2013 og reglugerðar 415/2014 um flokkun og merkingu efnavara.

Skoðaðar voru tvær vörur í eftirlitinu, annars vegar Borax Decahydrate sem selt er í 25 kg pokum og hins vegar Bórax, en það inniheldur efni úr 25 kg pokunum sem hefur verið umpakkað í 150 g plastdósir. Reyndust merkingum á báðum vörunum vera ábótavant, en þær eru markaðssettar sem áburður.

Á Bórax í 150 g umbúðum vantaði alfarið hættumerki, hættu- og varnaðarsetningar á íslensku og viðvörunarorð, sem einnig skal vera á íslensku. Á 25 kg umbúðunum voru bæði hættumerkin til staðar sem og viðvörunarorðið ásamt hættu- og varnaðarsetningum, en þó ekki á íslensku eins og krafa er um í reglugerð. Þá voru upplýsingar um birgi ófullnægjandi á báðum vörunum.

Umhverfisstofnun stöðvaði markaðssetningu beggja varanna um stundarsakir í samræmi við heimildir sínar samkvæmt 57. gr. efnalaga og er fyrirtækinu því óheimilt að markaðssetja þær þar til bætt hefur verið úr merkingum eða eftir atvikum til 1. mars nk.

 

Til baka
Mynd sem fylgir - Rauði listinn

Rauði listinn

Veita þarf ákveðnum friðlýstum svæðum á Íslandi sérstaka athygli og aðhlynningu.
Meira