Þjórsárver

Þjórsárver voru fyrst lýst friðland árið 1981 og friðlýsingin var endurskoðuð árið 1987. Víðáttumesta gróðurvin á miðhálendinu. Stingur í stúf við harðneskjulegt umhverfið. Gróskumiklar og fjölskrúðugar flæðilendur með afar fjölskrúðugu gróðurfari. Mestu varpstöðvar heiðargæsarinnar í heimi. Svokallaðar rústir eru sérkennilegar sífreramyndanir í jarðvegi sem geta orðið yfir metri að stærð. Örnefni minna á búsetu útilegumanna í gegnum tíðina.

Svæðið er verndað samkvæmt samþykkt um votlendi sem hefur alþjóðlegt gildi, einkum fyrir fuglalíf (Ramsar). Á tímabilinu 1. maí til 10. júní er umferð um varplönd heiðargæsar bönnuð.

Þjórsárver, helsti varpstaður heiðargæsar (sjá mynd)

Þjórsárver er víðáttumikil gróðurvin á miðhálendi Íslands, um 140 ferkílómetrar að flatarmáli. Verin eru að mestu leyti vestan Þjórsár sunnan Hofsjökuls og eru í um 600 metra hæð yfir sjávarmáli. Meginhluti Þjórsárvera og aðliggjandi svæði (alls 357,84 km2) voru friðlýst árið 1981 og svæðið tekið á Ramsarskrána árið 1990 sem alþjóðlega mikilvægt votlendi, einkum vegna auðugs fuglalífs.

Gróin svæði í Þjórsárverum hafa endinguna -ver, svo sem Tjarnaver, Oddkelsver og Þúfuver. Orðið ver getur merkt tvennt, annars vegar mýri eða flói, og sú merking er viðtekin nú í huga fólks, en hins vegar, og það sem er nær lagi í þessu tilviki, getur það vísað til staðar þar sem menn veiddu dýr eða söfnuðu eggjum. Þessu til sönnunar má nefna íslenska orðið verbúðir, sem er haft um dvalarstaði sjómanna, og í norsku þekkjast orðin eggvær og dunvær, sem á íslensku verða eggver og dúnver: staðir þar sem stunduð var eggjataka eða dúntekja. Þjórsárver eru ein víðáttumesta og afskekktasta gróður­vin á hálendi Íslands. Sérstaða þeirra og tilvist er fyrst og fremst afrakstur af samspili jökla, vatns, jarðvegs, veðurfars, gróðurfars og dýralífs. Þjórsárver eru hluti mikilfenglegrar náttúru og landslagsheildar sem er að mestu leyti ósnortin.

Náttúra

Gróðurvinjar hálendisins eru leifar samfellds gróðursvæðis sem var fyrrum miklu víðáttumeira og samfelldara en nú er og þessar vinjar eru heimkynni fjölda lífvera sem þrífast ekki í auðninni umhverfis. Þjórsárver eru því jafnframt uppspretta fræs, eins konar fræbanki, sem getur komið landinu umhverfis til góða og stuðlað að uppgræðslu þar ef skilyrði verða hagstæðari. Þetta eykur til muna mikilvægi þessara grónu svæða.
Hluti Þjórsárvera er flæðiengi, sem eru óvenjulegt á hálendinu, og þar er líka að finna rústaflár, sem eru annars afar fágætar. Í þessari hálendisvin finnast fleiri tegundir lífvera en nokkurs staðar annars staðar á hálendi Íslands, og hér eiga flestir hópar lífvera fulltrúa.

Hér hafa til dæmis fundist um 167 tegundir háplantna og 244 tegundir skordýra, kóngulóa og langfætlna. Refastofninn er ekki stór og fátt er um hagamýs. Þjórsárver eru mjög mikilvæg fyrir vernd líffræðilegrar fjölbreytni. Verndargildi Þjórsárvera er ekki síst fólgið í þeirri miklu fjölbreytni lífríkisins sem þar er að finna.
Þjórsárver eru mesta varpland heiðagæsar í veröldinni og fræðimenn hafa verið þeirrar skoðunar um langa hríð að hann skipti sköpum um afkomu þessa stofns á Íslandi og Grænlandi. Margir aðrir fuglar verpa hér á þessu svæði, meðal annars rjúpa, heiðlóa, sandlóa, óðinshani, lóuþræll, sendlingur, snjótittlingur, hávella, kjói og kría. Himbrimi verpir hér en er sjaldséður og álftin, sem var fyrrum algeng, sést mun sjaldnar en áður.
Þjórsárver eiga tilvist sína að þakka vatni, bæði jökulvatni og lindarvatni. Vatn er alls staðar, ár og lækir kvíslast um landið og í dældum sitja tjarnir og pollar. Hornsíli finnast í lækjunum og skötuormur og önnur krabbadýr eru í nánast hverri tjörn, mikilvæg fæða margra fugla.

Það sem gerir Þjórsárverasvæðið svo mikilvægt sem raun ber vitni er að þar finnast svo mörg búsvæði og einstök landslagsheild sem njóta verndar í nánast ósnortinni mynd, þótt sett hafa verið upp vatnsmiðlunarmannvirki, Kvíslaveita, þar sem eru 25-30 km2 uppistöðulón og farvegir í jaðri friðlandsins. Við gerð veitunnar fóru sex ferkílómetrar gróins lands undir vatn. Allt frá því er landið var friðlýst, og raunar fyrr, hafa legið fyrir áætlanir um að nýta umtalsverðan hluta friðlandsins til vatnsmiðlunar vegna vatnsaflsvirkjana og er sú framkvæmd nefnd Norðlingaölduveita. Slík vatnsmiðlun ylli alvarlegum skemmdum á grónu landi og yrði til þess að rjúfa landslagsheildina. Þá er enn fremur hætta á að gróður yrði fyrir skaða vegna rofs af völdum vatns og vinda. Landið er mjög flatt og af þeim sökum er mjög erfitt að spá fyrir um þann skaða sem yrði á gróðri. Áætlanir um Norðlingaölduveitu hafa verið lagðar af í bili í það minnsta verður veitan mun minni en upprunalega var gert ráð fyrir.

Náttúrufegurð Þjórsárvera og umhverfis þeirra með jökulinn í baksýn er alþekkt og fjölbreyttur gróður, tjarnir og vötn, mikið fuglalíf og smærri dýr, jökulár og víðernið gera þetta svæði einstakt í sinni röð. Á Íslandi fækkar ört þeim svæðum þar sem ekki hafa verið sett niður mannvirki af einhverju tagi, skálar, kofar, vegir eða uppistöðulón. Þjórsárver eru því án nokkurs vafa eitt dýrmætasta svæðið á hálendi Íslands.

Jarðfræði

Landið í og við Þjórsárver er öldótt háslétta, mótuð af Ísaldarjökli og berggrunnurinn er að mestu basalthraun, jökulberg, sem er harðnaður jökulruðningur, sandsteinn, til orðinn úr jökulvatnsseti, og móberg. Þegar jökullinn hopaði fyrir um 10.000 árum skildi hann eftir sig malarása sem setja mestan svip á landið. Hraun hefur runnið nokkrum sinnum í grennd við Þjórsárver eftir lok ísaldar. Ofan á berggrunninum eru víðast hvar þykk setlög, en ofan á þeim er sendinn jarðvegur, 2-7 m þykkur, og sandurinn verður því meiri sem ofar dregur sem bendir til þess að sandfok hafi farið vaxandi eftir því sem á leið.

Nýting Þjórsárvera

Heiðgæsin var nýtt öldum saman í Þjórsárverum, að líkindum fram á 18. öld. Þegar gæsin var í sárum var henni smalað og hún rekin í réttir. Enn má sjá rústir gæsarétta, en slík mannvirki þekkjast ekki annars staðar á landinu. Ekki hefur alltaf verið auðvelt að smala gæsunum saman í votlendinu, en það hefur þó hjálpað til að fuglinn er mjög hjarðsækinn og safnast í flokka. Fyrrum voru álftir einnig teknar í sárum í Þjórsárverum og þeim slátrað.

Vitað er að um aldir hefur sauðfé sótt í beit í Þjórsárverum, en hrossum var aldrei haldið til beitar hér og það hefur sett svip sinn á gróðurfarið. Sauðfé sækir enn hingað, en þar eð sauðfjárhald hefur dregist mjög saman á síðustu árum hefur sauðkindum fækkað hér að sama skapi og trúlega hafa þær nánast engin áhrif á gróðurfar veranna lengur. Fyrrum voru fja1lagrös tínd norðan undir Arnarfelli þar sem þótti gott grasaland.

Útilegumenn í Þjórsárverum

Fyrrum lágu þjóðleið milli Suður- og Norðurlands um Sprengisand. Þrjár leiðir lágu um Þjórsárver og réðst það af vöðum yfir Þjórsá hvar þær lágu. Víða má enn sjá móta fyrir þessum fornu reiðgötum. Fjalla-Eyvindur (Eyvindur Jónsson, fæddur 1714) og fylgikona hans, Halla Jónsdóttir, lifðu í útlegð um að minnsta kosti fimmtán ára skeið og héldu þá til á ýmsum óbyggðum svæðum á landinu. Margar frásagnir eru til um felustaði þeirra á hálendinu sem voru að líkindum meðal annars í Herðubreiðarlindum, Hvannalindum, á Hveravöllum og í Þjórsárverum. Hjúin héldu líklega til í Þjórsárverum á árunum frá 1765 til 1772. Talið er að þau hafi byggt fleiri en einn íverustað í verunum og sagt er að Eyvindur hafi lýst því yfir að hvergi hafi hann unað hag sínum betur en þar. Eyvindur var einkar hagur maður og nýtti öll gæði náttúrunnar sem völ var á sem frekast hann mátti. Það er ótrúlegt að Eyvindur og Halla hafi getað þraukað veturna og lifað af fimbulfrost og illviðri á svæði þar sem engin dýr var að finna. Þau urðu því að viða að sér vetrarforða og fólk úr nágranna­byggðum fann einhverju sinni 75 sauðahausa við kofa Eyvindar í grennd við Arnarfell.

Mynd sem fylgir - Rauði listinn

Rauði listinn

Veita þarf ákveðnum friðlýstum svæðum á Íslandi sérstaka athygli og aðhlynningu.
Meira