Meðganga

Kona með barniÁ meðgöngu verður til nýr einstaklingur og það er mikilvægt að raska ekki þessu mikilvæga þroskaferli. Ef þú ert verðandi foreldri eða íhugar slíkt þá er vert að staldra við og skoða þau efni sem þú kemst í snertingu við daglega. Sum þessara efna sem eru í ýmsum algengum neytendavörum geta nefnilega haft skaðleg áhrif á barnið.

Ný rannsókn hefur leitt í ljós að konur ættu að reyna að minnka snertingu sína við þessi efni og þá sérstaklega efni sem sýnt hafa hormónaraskandi verkun.Því ættu ófrískar konur að huga vel að því hvaða vörur þær nota á meðgöngu og þegar barn er haft á brjósti því efni geta bæði borist til barnsins í gegnum fylgjuna og með móðurmjólkinni.

Notaðu eins lítið af snyrtivörum og kremi og hægt er

Ákveðin efni í snyrtivörum geta borist frá húð móður til barns gegnum fylgjuna og einnig með brjóstamjólk. Sum þessara efna geta valdið ofnæmi og hormónatruflunum. Spurðu afgreiðslufólk verslana um snyrtivörur án rotvarnar- og ilmefna eða umhverfismerktar vörur. Allar snyrtivörur og krem eiga að vera með efnainnihaldslista á umbúðum. 

Slepptu ilmvatninu og reyndu að nota ilmefnalausar vörur

Þegar notað er ilmvatn á meðgöngu getur bæði þú og barnið orðið fyrir áhrifum efnanna sem  eru í því. Ilmvötn geta valdið ofnæmisviðbrögðum eins og ertingu í húð, útbrotum og öndunarerfiðleikum. Hér er hægt að sjá lista yfir 26 ofnæmisvaldandi ilmefni.

Kauptu umhverfismerktar vörur þegar slíkt er í boði

Þegar þú kaupir umhverfismerkta vöru getur þú verið viss um góð gæði og einnig að varan skaði hvorki þig né barnið þitt. Svanurinn og Evrópublómið eru umhverfismerki sem má finna á vörum og þýðir að varan er framleidd með tilliti til umhverfis og heilsu. Þú getur fundið Svaninn og Evrópublómið meðal annars á snyrtivörum, kremum, þvottaefnum, hreinsiefnum og fötum. Hér er hægt að fræðast betur um Svaninn.

Ekki lita hárið

Hárlitir innihalda efni sem geta valdið alvarlegu ofnæmi. Þessi efni geta borist til barnsins ef þú ert barnshafandi eða með barn á brjósti. Jafnvel litir sem eru sagðir innihalda „náttúruleg litarefni“ geta innihaldið efni sem hafa skaðleg áhrif. Í dag hafa öll litarefni einhver skaðleg áhrif og því er best að gera hlé á hárlitun á meðan á meðgöngu stendur og á meðan barnið er á brjósti.

Forðastu að nota vörur í úðabrúsum og málningu

Þegar notaðar eru vörur í úðabrúsum andar þú að þér agnarsmáum ögnum af efnum sem geta verið skaðleg. Dæmi um vörur í úðabrúsum eru hársprey, svitalyktaeyðir, málningarúði o.fl. Ekki byrja að mála barnaherbergið viku áður en barnið á að koma í heiminn því það getur tekið nokkrar vikur fyrir málningarlyktina og þar með efnin í henni að hverfa alveg. Einnig skal vanda valið á málningu en hægt er að kaupa Svansmerkta málningu.

Tengt efni

Mynd sem fylgir - Rauði listinn

Rauði listinn

Veita þarf ákveðnum friðlýstum svæðum á Íslandi sérstaka athygli og aðhlynningu.
Meira