Skólavörur

Við val á skólavörum bera flestir saman verð og gæði en vert er að hafa í huga að stundum geta skólavörur innihaldið efni sem eru skaðleg börnum undir vissum kringumstæðum. Dæmi um slík efni eru þalöt í mjúku plasti og gúmmíi (t.d. í drykkjarílátum, pennaveskjum, skólatöskum, nestisílátum, endurskinsmerkjum og strokleðri), og ýmsir hlutir með sterka efnalykt eins og tússlitir og strokleður. Þalöt raska hormónastarfsemi líkamans sem getur leitt til skertrar frjósemi. Þótt búið sé að banna notkun algengustu þalata í leikföngum og ungbarnavörum nær bannið ekki til skólavara fyrir grunnskólabörn. Framleiðendur, innflytjendur og söluaðilar skólavara bera ábyrgð á að vörur þeirra uppfylli settar reglur.

Góð ráð við heilsu- og umhverfismeðvituð kaup á skólavörum

  • Veljið CE merktar vörur en CE merkið þýðir að varan er framleidd í samræmi við evrópska staðla og reglur
  • Verið vandlát á gæði: Vandaðar vörur endast betur og skila umhverfislegum ávinningi í minna sorpi
  • Forðist drykkjarílát úr mjúku plasti með endurvinnslumerkið PVC 3 og hörðu glæru plasti með endurvinnslumerkið 7
  • Hvetjið börn til að naga ekki strokleður og plast

Blýantar með litríkum strokleðrumAlgengt er að mjúkt plast og strokleður séu úr PVC-plasti (pólývinýlklóríð) sem inniheldur þalöt. Talið er líklegt að börn komist í mesta snertingu við þalöt við notkun á drykkjarflöskum úr plasti. Auk þess eru sumir plasthlutir þannig gerðir að börn freistast til að naga þá og eru þá útsett fyrir skaðlegum efnum á borð við þalöt í plastinu. Hægt er að kaupa strokleður án PVC. Þalöt geta losnað út í umhverfið í örlitlum mæli frá hlutum, loðað við ryk og verið langtímum saman í andrúmslofti innanhúss.

Vandamálið sem við stöndum frammi fyrir er að oft er ekki hægt að fá upplýsingar um skaðleg innihaldsefni nema með prófunum á rannsóknastofum. Auk þess er ekki alltaf hægt að treysta á að framleiðendur eða innflytjendur standi sig við að miðla upplýsingum um skaðleg efni í vörum. Á meðan eykst hlutdeild vara á markaði sem framleiddar eru með það að meginmarkmiði að halda niðri kostnaði og uppfylla ekki alltaf ströngustu kröfur. Nýlegar reglur kveða þó á um að upplýsingar um innihald ákveðinna efna í hinum ýmsu neytendavörum skuli standa neytendum til boða í verslunum.

Sjá einnig upplýsingar og ráðleggingar frá dönskum yfirvöldum:Mynd sem fylgir - Rauði listinn

Rauði listinn

Veita þarf ákveðnum friðlýstum svæðum á Íslandi sérstaka athygli og aðhlynningu.
Meira