Rafmagnsvörur

Sparperan tekur við af glóperunni.Þann 1. september 2012 gekk í gildi bann við sölu og dreifingu á glærum 15W, 25W og 40W glóperum til heildsala og endursöluaðila. Þetta er gert til að uppfylla reglur um orkusparnað í aðildarríkjum EES. Verslunum er þó leyfilegt að selja þær glóperur sem fluttar voru inn fyrir 1. september. Reiknað hefur verið út að ef öll heimili á Íslandi skiptu út tíu 60W glóperum fyrir tíu 11W sparperum myndi orkan sem sparast vera um 60 milljón kWh á ári, sem samsvarar heildarrafmagnsnotkun 13 þúsund heimila.

Í stað glópera skal nota orkusparandi perur og er í dag hægt að velja á milli þriggja mismunandi tegunda slíkra sparpera: halogenperur, flúrperur og LED-perur. Munurinn á milli þessara pera felst bæði í tækninni á bak við lýsinguna og efnainnihaldi. Því er ekki hægt að setja þær allar undir sama hatt.

 • LED-perur: LED stendur fyrir light-emitting diode, eða díóðuljós og hefur verið notað víða eins og í jólaseríum og blikkljósum neðan á skóm barna. Nú er þessi tækni notuð í ljósaperum.
 • Halógenpera er glópera sem inniheldur lítið magn af halógengasi. Við efnahvarf á milli wolframþráðar og halógengass myndast bjart ljós.
 • Flúrperur virka á þann hátt að inni í þeim er þráður sem sendir frá sér rafeindir þegar hann er hitaður upp. Rafeindirnar hreyfast inni í perunni og rekast á kvikasilfursatóm sem við það gefa frá sér ósýnilegt, útfjólublátt ljós. Peran er húðuð að innan með fosfór og þegar útfjólubláa ljósið rekst á fosfórinn gefur hann frá sér sjáanlegt ljós. Slíkt kallast flúrljómun (e. fluorescence), sbr. flúrperur.

Flúrperur innihalda kvikasilfur í litlu magni sem er hættulegt umhverfinu og heilsu manna. Því flokkast þessar perur sem spilliefni og skal skila á endurvinnslustöðvar þar sem þær eru meðhöndlaðar á réttan hátt. Það má alls ekki henda flúrperum beint í ruslafötuna. Á umbúðum ljósapera er yfirleitt hægt að sjá hvort og þá hve mikið kvikasilfur er í viðkomandi peru. Það er góð regla að skila inn öllum orkusparandi perum á endurvinnslustöðvar - það kostar ekkert.

Veljið gjarnan umhverfismerktar sparperur því þær innihalda minna kvikasilfur og hafa langan endingartíma.

Ef flúrpera brotnar?

 • Ef flúrpera brotnar losnar lítið magn af kvikasilfursögnum sem þú skalt forðast að anda að þér.
 • Hafðu opinn glugga á meðan þú þrífur upp perubrotin.
 • Ekki nota kúst því hann getur dreift kvikasilfrinu enn meira um herbergið.
 • Skrapaðu frekar upp brotin með pappaspjaldi og svo má nota límband og blautan eldhúspappír til að ná smáum ögnum.
 • Gakktu frá brotunum í loftþétt ílát svo sem sultukrukku eða frystipoka og skilaðu þessu inn sem spilliefni á þína endurvinnslu- eða móttökustöð.
 • Til vonar og vara er gott að lofta vel út í 15 mínútur eftir þrifin og vera meðvitaður um að lofta aðeins aukalega næstu 14 dagana.

Umfjöllun um ljósaperur á erdetfarlig.no


Innstunga

Á hverju heimili má finna ýmis konar raftæki sem við teljum til sjálfsagðra þæginda en raftæki geta innihaldið ýmis efni sem geta verið hættuleg heilsu okkar og umhverfi.

Raftæki geta innihaldið m.a. efni eins og kvikasilfur, kadmíum, blý, kopar, brómeruð eldtefjandi efni og plastefnið PVC. Öll þessi efni geta verið skaðleg umhverfi okkar og heilsu. Árið 2006 var sett bann við að flytja inn, flytja út, dreifa eða selja ný raftæki ef í þeim væri blý, kadmíum, kvikasilfur, sexgilt króm, PBB(fjölbróm-bífenýl) eða PBDE(fjölbróm-dífenýleter), en eldri raftæki gætu innihaldið eitthvert þessarra efna.

Til að koma í veg fyrir að þessi efni berist út í umhverfið er mikilvægt að raftæki séu meðhöndluð á réttan hátt eftir að notkun þeirra er hætt. Því er nauðsynlegt að skila öllum raftækjum á næstu endurvinnslu- eða móttökustöð og er það neytendum að kostnaðarlausu. Raftæki eiga alls ekki að fara í tunnuna fyrir venjulegt heimilissorp og eiga öll ný raf- og rafeindatæki að vera merkt með yfirstrikaðri sorptunnu sem gefur það til kynna.

Árið 2008 voru sett markmið um meðhöndlun raftækjaúrgangs með það að leiðarljósi að auka söfnun,endurnýtingu og endurvinnslu og minnka þannig förgun á raftækjaúrgangi. Þar er stefnt að því að safna og meðhöndla að lágmarki 6 kg á hvern íbúa á hverju ári. Einnig voru sett markmið um hlutföll endurnýtingar og endurvinnslu á söfnuðum raftækjum.

Magn safnaðs raftækjaúrgangs á hvern íbúa landsins fyrir 2009-2014.

 Ár Magn (kg/íbúa) 
 2009  3,2
 2010  5,0
 2011  6,5
 2012  7,7
2013
 7,7
 2014 10,5

Eins og taflan hér að ofan sýnir hefur söfnun raftækjaúrgangs aukist mikið á hverju ári og var markmiðinu náð árið 2011. Greinilegt er að setning þessara markmiða árið 2008 hafi verið sú hvatning sem hefur þurft til að auka söfnun á raftækjaúrgangi. Það er síðan á ábyrgð okkar allra að halda áfram að skila úr sér gengnum raftækjum á endurvinnslu- eða móttökustöðvar til að auka söfnun enn frekar.

Góð ráð

 • Óæskilegt er að hafa raftæki í svefnherbergi. Rokgjörn efni, sem geta verið skaðleg heilsu okkar, losna frá raftækjum og því er óæskilegt að hafa raftæki í svefnherbergi og nauðsynlegt að láta lofta vel út í því rými sem tækið er í.  
 • Haldið raftækjum hreinum. Ryksugaðu raftækin. Ýmis efni, sem geta verið skaðleg heilsu okkar og umhverfi, binda sig við ryk sem safnast inni í raftækjunum.
 • Gefið nothæf og gömul raftæki. Nytjamarkaðir taka við raftækjum sem fólk er hætt að nota en eru enn vel nothæf, t.d. Góði hirðirinn og ýmsir nytjamarkaðir um allt land.
 • Skilið úr sér gengnum raftækjum á endurvinnslu- eða móttökustöð. Endurnýting og endurvinnsla á efnum eins og kopar, gull o.fl. minnkar ágang á óendurnýjanlegar auðlindir jarðarinnar. Endurnýting og rétt förgun efna eins og blý og króm minnkar mengun á umhverfi okkar. Neytendur geta skilað raftækjum á endurvinnslu- eða móttökustöð án endurgjalds. Raftæki eiga ekki heima í heimilissorpinu.  
 • Haldið raftækjum við. Gott viðhald á raftækjum tryggir betri endingu þeirra og minnkar brunahættu.
 • Takið rafhlöður úr raftækjum sem sjaldan eru notuð. Rafhlöður fara að leka með tímanum og geta skemmt raftækið. • Raftæki eiga að vera CE merkt. CE merking gefur til kynna að tækið uppfylli þær lágmarkskröfur um öryggis-, heilsu- og umhverfisvernd sem tilskipanir Evrópusambandsins kveða á um.
 • Minnkum rafmagnsnotkun. Að setja rafmagnstæki í biðstöðu (stand by) eyðir líka rafmagni svo best er að slökkva alveg á tæki eða taka það úr sambandi. Að safna í fullar þvotta- og uppþvottavélar minnkar rafmagnsnotkun því þá þarf að þvo sjaldnar. Einnig sparar rafmagn að þvo á lægri hita. Um leið og veður leyfir er líka gott að hengja þvottinn út á snúrur en þurrkarar eru með orkufrekari tækjum á heimilum.

Flokkum og skilum án endurgjalds raf- og rafeindatækjum til endurvinnslu og drögum þannig úr ofnýtingu auðlinda. Mörg raftæki innihalda hættuleg spilliefni sem meðhöndla þarf með viðeigandi hætti auk fágætra málma sem nýst geta aftur.

Rafhlaða

Rafhlöður og rafgeymar flokkast sem spilliefni vegna þeirra efna sem þau innihalda en það geta verið efni á borð við t.d. kadmíum, kvikasilfur, blý og ætandi sýrur. Það er mjög mikilvægt að farga rafhlöðum á réttan hátt, sérstaklega þeim sem innihalda blý, kvikasilfur og kadmíum. Yfirleitt ber rafhlaðan merkingar sem tilgreina hvaða efni hún inniheldur en það því miður ekki við í öllum tilvikum. Þess vegna er mjög mikilvægt að farga öllum rafhlöðum á sama hátt en samkvæmt lögum er bannað að henda spilliefnum eins og rafhlöðum með óflokkuðum úrgangi.

Ekki má gleyma að rafhlöður í raftækjum, svo sem fartölvum, farsímum eða Ipod spilurum innihalda fleiri spilliefni en venjulegar rafhlöður og mega alls ekki enda í almennum úrgangi. Óheimilt er að urða raftæki og þeim ber því ætíð að skila til móttökuaðila.  Hafa ber í huga að allt sem við hendum beint í ruslatunnuna hjá okkur endar úti í náttúrunni á einn eða annan hátt. Í rafhlöðum er bæði að finna verðmæta málma og eiturefni sem hægt er að fjarlægja með endurvinnslu. Flokkum heldur meira en minna.

Undanfarin ár hefur söfnunarhlutfall á rafhlöðum og rafgeymum lækkað töluvert eða úr 33% árið 2013 fyrir rafhlöður í 26% árið 2014. Söfnun á rafgeymum lækkaði úr 91% árið 2013 í 69% árið 2014 (sjá greiningu hér ). Því er afar mikilvægt að við vinnum áfram að því að auka söfnunarhlutfall þessa úrgangs. Með því getum við komið í veg fyrir að efni úr þeim mengi umhverfið okkar og við minnkum sóun á hráefnum eins og málmum, nikkel, blý og lithium.

Á öllum rafhlöðum og rafgeymum á að vera mynd af yfirstrikaðri tunnu, sbr. myndin hér að ofan, og gefur hún til kynna að þegar rafhlaðan eða rafgeymurinn er úr sér genginn eigi að skila þeim á endurvinnslu- eða móttökustöð.


Góð ráð

 • Hægt er að skila rafhlöðum á endurvinnslustöðvar og til spilliefnamóttöku, sölu- og dreifingaraðilar (bensínstöðvar, raftækjaverslanir og fleiri) rafhlaða og rafgeyma ber einnig að taka við þeim sem þýðir að þar sem hægt er að kaupa þessar vörur þá er líka hægt að skila þeim þangað eftir notkun. Nánari upplýsingar um móttökustaði er hægt að finna hjá þínu sveitarfélagi.
 • Athugið að gamlar rafhlöður geta lekið og því er ekki gott að geyma þær í plastpokum. Vökvinn í rafhlöðunum getur hvarfast við plastpokann og myndað gastegundir sem eru skaðlegar heilsunni. Hægt er nálgast ílát fyrir ónýtar rafhlöður hjá t.d. endurvinnslustöðvum SORPU.
 • Gott er að velja Svansmerktar rafhlöður en þá er víst að þær innihaldi ekki óæskileg efni eða endurhlaðanlegar rafhlöður sem þá eru nýttar aftur og aftur í stað þess að sífellt þurfi að kaupa nýjar rafhlöður og henda þar af leiðandi fleirum.

Rafhlöður og rafgeymar geta innihaldið efni s.s. blý, kadmíum og kvikasilfur sem geta verið skaðleg heilsu okkar og umhverfi. Skilum alltaf vörunum eftir notkun til móttökustöðva sveitarfélaga, spilliefnamóttöku eða sölu- og dreifingaraðila - neytendum að kostnaðarlausuMynd sem fylgir - Rauði listinn

Rauði listinn

Veita þarf ákveðnum friðlýstum svæðum á Íslandi sérstaka athygli og aðhlynningu.
Meira