Matarsóun

Að leifa mat þykir ekki góður siður. Ekki nóg með að þá fari maturinn sjálfur til spillis og enginn fær að njóta hans heldur er um leið verið að sóa fjármunum og auðlindum jarðar. Þar að auki tekur maturinn mikið pláss á urðunarstöðum heimsins, kyrfilega pakkaður í plastpoka og fluttur um langan veg. 

Umhverfisstofnun hefur lokið rannsókn um umfang matarsóunar á Íslandi. Safnað var upplýsingum um hversu miklum mat og drykk er hent inni á heimilum, í matarframleiðslu, í heildsölu og smásölu, á veitingastöðum og í mötuneytum hér á landi og hversu stórum hluta af matvælunum væri hægt að nýta. Rannsóknin er unnin með styrk frá Evrópsku hagstofunni (EUROSTAT) og er fyrsti vísir af hagtölum um matarsóun á Íslandi. Helstu niðurstöður voru að matarsóun á Íslandi er sambærileg því sem gerist í öðrum löndum Evrópu, bæði hvað varðar heimili og fyrirtæki. Einnig sýndu niðurstöðurnar að ekki er marktækur munur á sóun á heimilum á höfuðborgarsvæðinu eða á landsbyggðinni. Nánari upplýsingar um rannsóknina má finna hér.

Vestræn lönd sóa gífurlegu magni matvæla á hverju ári, matvæli sem hefðu hugsanlega geta brauðfætt milljónir manna. Matvælastofnun Sameinuðu þjóðanna metur það sem svo að 1,3 milljón tonn af matvælum fari í ruslið á hverju ári. Áætlað er að í iðnvæddum löndum, líkt og Íslandi, fari þriðjungur þess matar sem keyptur er beint í ruslið.

Til þess að framleiða milljónir tonna af matvælum sem enginn borðar þarf að höggva skóga og ræsa fram votlendi, framleiða áburð og dreifa skordýraeitri, verksmiðjuframleiða búfénað eða korn sem er svo pakkað og flutt um allan heim. Af þessu hljótast margvísleg og oft verulega neikvæð umhverfisáhrif sem þjóna engum tilgangi ef afurðin, eða maturinn, er ekki nýttur. 

Lestu frekar um matarsóun og aðgerðir gegn matarsóun á Íslandi á www.matarsóun.is.

Ekki er einungis um umhverfislegan og samfélagslegan ávinning að ræða af því að minnka matarsóun heldur einnig fjárhagslegan. Talið er að á Vesturlöndum hendi hver einstaklingur nýtanlegum mat að virði um 60.000 króna á ári. Í fjögurra manna fjölskyldu gerir það 240.000 krónur á ári. Hver vill ekki nýta þessar krónur í aðra hluti en til metanframleiðslu á urðunarstöðum? 

Sem betur fer eru til margvíslega leiðir til að nýta mat betur og koma í veg fyrir matarsóun. 

 

Að geyma afganga, sparar pening og auðlindir

Mynd sem fylgir - Rauði listinn

Rauði listinn

Veita þarf ákveðnum friðlýstum svæðum á Íslandi sérstaka athygli og aðhlynningu.
Meira