Húsgögn

Sófi

Húsgögn eins og stólar, borð og skápar eru jafnan framleidd úr tré, málmi og/eða plasti og geta innihaldið efni sem eru skaðleg fyrir umhverfið og heilsuna á ýmsan hátt. Þessi efni geta gufað upp af húsgögnunum við notkun, en einnig við framleiðslu og förgun.

  • Veldu umhverfismerkt húsgögn ef þau eru í boði, t.d. með Svaninum eða Evrópublóminu
  • Veldu trégarðhúsgögn með FSC merkinu sem stendur fyrir Forest Stewardship Council en þar eru gerðar kröfur um að efniviðurinn komi úr skógi þar sem skógræktin taki mið af sjálfbærri þróun.
  • Láttu lofta vel um ný innihúsgögn í nokkra daga af því að þau geta gefið frá sér skaðleg efni til að byrja með. Regluleg loftræsing er alltaf til bóta.
  • Forðastu húsgögn með gervileðri sem framleitt er úr PVC-plasti með mýkingarefnum úr þalötum. Athugið að vörum sem innihalda PVC skal skila til endurvinnslu.
  • Veldu húsgögn sem eru lökkuð með vatnsþynnanlegu lakki.
  • Reyndu að velja húsgögn úr gegnheilu efni, sérstaklega ef mikið mæðir á þeim, t.d. eldhússtólar og eldhúsborð.
  • Lengdu líftíma húsgagna með því að gefa eða selja gömul og heil húsgögn sem þú hefur ekki not fyrir lengur. Bæði er hægt að auglýsa á netinu eða gefa til “Góða hirðisins” eða líknarsamtaka. Svo er aldrei að vita nema einhver nálægt þér myndi þiggja með þökkum eitthvað sem þú hefur ekki not fyrir lengur.

Upplýsingar um húsgögn án PVC-plasts eða þalata af heimasíður Miljøstyrelsen í Danmörku.

Upplýsingar um húsgögn frá Klima- og forureiningsdirektoratet í Noregi. 

Húsgögn úr tré

Næstum allar tréplötur, t.d. spónaplötur, krossviður og límtré, innihalda lím sem mótar plötuna. Lím inniheldur formaldehýð og hefur uppgufun þess frá nýjum húsgögnum valdið áhyggjum lengi því formaldehýð getur valdið ofnæmi og jafnvel krabbameini. Í dag er notað mun minna af formaldehýði í húsgögn en  áður og því hefur dregið úr þessu vandamáli.

Tréhúsgögn eru oft lökkuð og lökkin eru misjöfn, allt frá sýruherðandi lakki sem getur gefið frá sér formaldehýð til vatnslakks sem telst betri kostur með tilliti til umhverfis og heilsu. Húsgögn eru líka stundum olíu- eða vaxborin og geta þá innihaldið lífræn leysiefni. Auk þess skiptir máli hvernig tréð er ræktað og fellt. Á Íslandi er hægt að kaupa garðhúsgögn úr tré með merkinu FSC en það merki gefur til kynna að tréð sem notað er við framleiðsluna er ræktað með hliðsjón af umhverfinu og framtíðinni, þ.e. á sjálfbæran hátt.

Húsgögn úr málmi og plasti

Mörg húsgögn eru úr málmi, t.d. áli eða stáli. Framleiðslan á hvoru tveggja er mjög orkukrefjandi og stundum eru húsgögnin að auki galvaniseruð með nikkel eða krómi. 

Plast er notað víða í húsgagnagerð. Flest garðhúsgögn úr plasti eru búin til úr polypropylen (PP) sem er eitt af minnst skaðlegu plastefnunum. Í húsgögn úr gervileðri er nær oftast notað PVC-plast sem er mýkt með þalötum. PVC skaðar umhverfið þegar það endar í ruslinu og sum þalöt eru talin raska hormónajafnvægi líkamans.

Mynd sem fylgir - Rauði listinn

Rauði listinn

Veita þarf ákveðnum friðlýstum svæðum á Íslandi sérstaka athygli og aðhlynningu.
Meira