Græn jól og áramót

Smelltu til að lesa blaðiðJólin eru hátíð ljóss og friðar en líka hátíð neyslunnar. Umhverfisstofnun vill vekja neytandann til umhugsunar og gefa góð ráð til að minnka umhverfisáhrif jólanna. Að mörgu er að hyggja við val á jólagjöfum og um að gera að nota ímyndunaraflið við innpökkunina. Á aðfangadagskvöld berst mikið magn af umbúðum inn í stofur landsins og mikilvægt að flokka og senda þær til endurvinnslu. Umhverfisstofnun gaf út blað fyrir jólin 2011 sem kallaðist Góð ráð fyrir græn jól sem má lesa hér.
Kona heldur á jólapakka

Góð ráð fyrir góð jólainnkaup!

VELDU GÆÐI FREKAR EN MAGN Forðumst óvandaðar eftirlíkingar sem bila oftast fljótt og enda í ruslinu. Hér má finna góð ráð við val á leikföngum og snyrtivörum.

LEITAÐU AÐ SVANI! Svansmerktar vörur fást í öllum helstu verslunum og úrval þeirra fer stöðugt vaxandi. Svanurinn klikkar ekki.

GERÐU KRÖFUR SEM NEYTANDI Það má spyrja í búðum. Máttur neytandans er mikill því hann getur aukið eftirspurn eftir umhverfisvænni vörum og þá mun markaðurinn auka framboðið.

GRÆNAR JÓLAGJAFAHUGMYNDIR

 • Gefðu heimatilbúna gjöf! Hvar liggja hæfileikarnir? Í prjónaskap, sultugerð eða listum?
 • Gefðu upplifun. Bjóddu í leikhús, á námskeið eða í ferð með útivistarfélagi.
 • Gefðu áskrift. Þekkirðu sjónvarpssjúkling? Gefðu honum áskrift að góðri sjónvarpsrás og tónlistarunnandanum áskrift að tónlistarvefverslun.
 • Gefðu bágstöddum. Öll þekkjum við fólk sem á allt og vantar ekkert. Gefðu til góðs málefnis í þeirra nafni og sendu þeim kort sem útskýrir hvernig gjöfin mun nýtast til góðs.

gjöf innpökkuð í prjónaðar umbúðirNotum hugmyndaflugið við innpökkunina!

Hefðbundinn jóla- og gjafapappír er ekki endurvinnanlegur vegna efnainnihalds í litum og annarrar sérmeðhöndlunar við framleiðslu. Ef marka má tölur frá nágrannaþjóðum okkar fara fleiri tonn af jólapappír í ruslið um jólahátíðarnar sem valda mengun og miklu álagi á umhverfið. Ýmsir valkostir eru í stöðunni sem geta dregið úr mengun þegar pakka á inn jólagjöfum:

 • Veljið pappír sem hægt er að endurvinna, t.d. pappír sem er merktur þannig eða einfaldan maskínupappír.
 • Búið til gjafaöskjur úr endurvinnanlegum pappír, t.d. skókassa, sem hægt er að skreyta á persónulegan hátt.
 • Dagblöð, tímarit eða plaköt geta komið vel út sem gjafapappír og útkoman getur orðið mjög frumlegur jólapakki.
 • Útbúið gjafapoka úr efnisafgöngum sem síðan er hægt að nota áfram til annarra hluta þegar búið er að taka utan af pakkanum.
 • Endurnýtið gjafapappír sem er heill og endurnýtanlegur.
 • Stilltu notkun gjafaborða í hóf. Hægt er að nota garn í staðinn eða skreyta pakkann á annan máta. Notaðu hugmyndaflugið! Hægt er að flétta garn úr ýmsum litum.
 • Það er góð hugmynd er að setja tvær gjafir saman í eina með því að nota sjálfa gjöfina í innpökkunina, t.d. tauinnkaupapoka, trefla, sjöl og dúka.

Margar frábærar innpökkunaraðferðir er hægt að nálgast á veraldarvefnum, eins og t.d. á www.recyclenow.com og www.furoshiki.com. Þar eru tillögurað flottum lausnum sem eru skemmtileg tilbreyting frá hefðbundnum jólapökkum. Það er ekkert kjánalegt eða asnalegt að nota síðan taudúkinn bara aftur til innpökkunar fyrir næsta gjafapakka; bara smart hugsun og gaman að fylgjast með ferðalagi dúksins næstu jólin.

Fjölskylda að saga jólatréHvaða jólatré er grænast?

Ekta tré?

Þegar skoðuð er efnanotkun við ræktun jólatrjáa og orku- og auðlindanotkun við flutning þeirra þá kemur í ljós mikill munur á íslenskum og innfluttum trjám. Við ræktun íslenskra jólatrjáa er notað lítið sem ekkert af varnarefnum, en víða erlendis eru bæði notuð illgresis- og skordýraeitur. Einnig ber að nefna þá hættu sem stafar af sjúkdómum sem geta borist með trjám þegar þau eru flutt hingað til lands. Þegar orkunotkun vegna flutninga er skoðuð þá hefur íslenska tréð augljóslega forskot; því styttri flutningsleið, því minni eldsneytisnotkun og útblástur. Íslensk jólatré hafa því yfirburði fram yfir innflutt tré þegar horft er á efna- og orkunotkun. Nú gefst fjölskyldum kostur á að fara út í skóg og höggva sér jólatré sem er bæði góð og skemmtileg samvera.

Plasttré?

Við framleiðslu á plastjólatrjám er notað mun meira af orku og auðlindum en við ræktun ekta trjáa. Plastið er upphaflega framleitt úr olíu og auk þess er framleiðslan orkufrek og vegalengdin löng frá framleiðslu til markaðar, þar sem langflest plastjólatré eru framleidd í Asíu. Mikið af úrgangi myndast síðan þegar þessum trjám er hent, ef þau eru ekki flokkuð og endurunnin. Ef plasttré er notað í mörg ár má segja að neikvæðu umhverfisáhrifin þynnist út. Hins vegar þarf að nota plastjólatréð í 20 ár svo það verði að betri kosti en ekta tré.

Skreytt borð um jólinNýtum matinn betur um jólin

Við vitum öll að matvörur spretta ekki tilbúnar fram í hillum verslana en að öllu jöfnu veltum við framleiðslu á matvörum lítið fyrir okkur. Fæstir vita til dæmis að um 24.000 lítra af vatni þarf til að framleiða 1 kg af súkkulaði (www.brugmerespild-mindre.dk). Áætla má að í ruslatunnu á meðalheimili séu í það minnsta 20% úrgangsins matvæli. Það má líklega álykta sem svo að almenn vanþekking okkar á framleiðsluaðferðum matvæla sé ein af ástæðum þess að við hendum svo gífurlega miklu af matvælum árlega.

Um þessi jól skulum við hugsa okkur vel um þegar kemur að matarinnkaupum og reyna að kaupa bara það sem við ætlum að nota. Gleymum ekki afgöngum í ísskápnum heldur gerum ráð fyrir þeim og skipuleggjum matseðil vikunnar með þá í huga eða frystum þá og tökum fram seinna. Einhverju þarf samt alltaf að fleygja og þá er upplagt að kynna sér heimajarðgerð. Höldum grænni jól í eldhúsinu!

Jólatré við troðna ruslatunnuAllir fá þá eitthvað fallegt

Á jólum gleðjumst við með því að skiptast á gjöfum. Í kjölfarið þarf stundum að „grisja“ í hirslum til að koma nýju hlutunum fyrir. Um leið og við ákveðum að henda einhverri vöru erum við að segja að hún sé okkur einskis virði. En varan gæti haft virði í augum annarra því hún missir ekki eiginleika sína við það eitt að vera hent í ruslið.

Stundum hafa komist á kreik sögur um að það sé ekki til neins að flokka úrgang því hann endi hvort sem er í sömu holunni. Það er þó engan veginn rétt að halda slíku fram. Úrgangur er hráefni og í dag hafa íslensk fyrirtæki aðgang að alþjóðlegum markaði fyrir endurvinnsluúrgang. Urðun hefur hins vegar eingöngu kostnað í för með sér. Suma úrgangsflokka er bannað að urða og er mikill þrýstingur á að draga úr urðun lífræns úrgangs samhliða því að auka endurvinnslu og endurnýtingu umbúðaúrgangs.

Forsenda fyrir endurvinnslu og endurnýtingu er að flokkun úrgangsins sé sem best.Sem neytendur getum við því átt stóran þátt í að tryggja að afgangs hráefni fái að lifa áfram og nýtast til annarra hluta. Til að fá upplýsingar um flokkunarmöguleika í þinni heimabyggð er einfaldast að hafa samband við skrifstofu sveitarfélagsins.

Leggjum okkar af mörkum og flokkum um jólin.

kertaskreytingKerti

Jólin eru hátíð ljóss og friðar og finnst mörgum kertaljós ómissandi til að skapa hlýlegt andrúmsloft og ylja okkur um hjartarætur í svartasta skammdeginu.

Þegar versla á kerti er um margt að velja. Hægt er að velja mismunandi liti, stærð og lögun en auk þess eru umhverfisáhrif kertanna mismikil. Flest kerti eru framleidd úr hráolíuafurðum (yfirleitt parafíni) sem mynda koltvíoxíð þegar þau brenna. Því hafa slík kerti áhrif á loftlagsbreytingar, rétt eins og olía og gas. Auk þess eru umhverfisáhrif hráefnavinnslunnar umtalsverð.

Kerti úr náttúrulegum afurðum eru betri fyrir umhverfið. Meðal þeirra náttúrulegu efna sem notuð eru í kerti eru sojavax, býflugnavax, tólg og stearín sem er unnið úr dýrafitu. Nokkrir íslenskir aðilar framleiða kerti úr endurunnum kertaafgöngum og er það án efa betra fyrir umhverfið. Ilmefni eru alltaf varhugaverð í neytendavörum, líka í kertum þar sem þau geta valdið ofnæmi.

Auðveld leið til að velja umhverfisvænt er að velja Svansmerkt. Svanurinn hefur þróað viðmið fyrir kerti en Svansmerkt kerti þurfa að vera gerð úr meira en 90% endurnýjanlegu hráefni. Auk þess eru gerðar kröfur til hámarks leyfilegrar sótmengunar frá kertunum og ilmefni ekki leyfð. Umbúðir þurfa einnig að uppfylla umhverfiskröfur og mega Svansmerkt teljós til að mynda ekki vera í álbakka.

Veljum Svansmerkt kerti um jólin!

FlugeldarÍslendingar eru frægir fyrir að skjóta upp ósköpunum öllum af flugeldum á nýársnótt. Áhrifin á andrúmsloftið eru öllum ljós en þau eru skammvinn og oftast nær er loftið orðið hreint á nýársdag. Það er hins vegar ekki allt sem sýnist. Í flugeldum geta verið efni sem berast út í umhverfið, safnast þar upp og geta jafnvel haft alvarleg áhrif á heilbrigði dýra efst í fæðukeðju. Því ætti fólk að gæta hófs í sprenginum en láta þó ekki áhyggjur af umhverfinu eyðileggja fyrir sér áramótin. Auk þess er sjálfsagt að spyrja seljendur hvort þeirra flugeldar standist kröfur um efnainnihald.

HCB (hexaklórbensen) er þrávirkt efni líkt og DDT og PCB en uppsöfnun þeirra í umhverfinu hefur valdið miklum skaða undanfarna áratugi. HCB er að finna í sumum flugeldum, en það er notað til þess að magna upp litina við sprengingu. Notkun þess er með öllu bönnuð hvort sem er í flugeldum eða í öðrum tilgangi. Það greindist í andrúmsloftinu í Reykjavík um síðustu áramót í margfalt hærri styrk en eðlilegt þykir. Efni sem skaðleg eru umhverfinu mælast jafnan í lægri styrk við Ísland en í nágrannalöndunum. Það á ekki við um HCB sem hefur mælst í meira magni í umhverfinu hér við land en hægt er að útskýra með mengun frá fjarlægum uppsprettum.

Það er á ábyrgð innflytjenda að tryggja að flugeldar innihaldi ekki efni sem eru bönnuð. Umhverfisstofnun tekur nú þátt í samevrópsku verkefni árið 2011 sem miðaði að því að fyrirbyggja þessa notkun til framtíðar. Markmiðið er að hægt verði að njóta ljósadýrðarinnar á nýársnótt án þess að hafa of miklar áhyggjur af mengun af völdum skaðlegra efna.

Góð ráð:

 • Spyrjum söluaðila hvort flugeldarnir uppfylli kröfur um efnainnihald.
 • Notum ætíð hlífðargleraugu þegar skotið er upp.
 • Brýnum fyrir börnum að umgangast flugelda af varúð.Mynd sem fylgir - Rauði listinn

Rauði listinn

Veita þarf ákveðnum friðlýstum svæðum á Íslandi sérstaka athygli og aðhlynningu.
Meira