Endurvinnsla

Hvað er úrgangur?

Öll neysla veldur úrgangi en úrgangur er ekkert annað en afgangshráefni, eitthvað sem við getum ekki nýtt eða sem við kjósum að nota ekki.

  • Úrgangur er afgangs hráefni
  • Hráefni í notkun eru verðmæti
  • Hráefni sem úrgangur er mengun

Af hverju ættum við að flokka?

stór hrúga af óflokkuðum úrgang

Við skilgreinum úrgang sem eitthvað sem við munum ekki nota framar en það þýðir þó ekki að eiginleikar efnisins hafi breyst að neinu leyti. Þetta á til dæmis við um pappír, timbur, plast, málma og fleiri efni. Matur í ruslatunnu hefur alveg sama næringargildi eins og þegar hann lá á matardisknum.  Það þarf því að eiga sér stað viðhorfsbreyting gagnvart úrgangi. Við verðum að líta á framtíðarmöguleika hráefnisins í stað þess að einblína á núverandi þarfir okkar. Heimurinn er á allan hátt lokað kerfi og því er blátt áfram heimskulegt að henda niðursuðudósinni sinni í blandaðan úrgang í dag ef maður þarf að kaupa þér dós af tómötum á morgun. Það er undir okkur komið að hráefnið sem til er á jörðinni haldist áfram í notkun í stað þess að þurfa sífellt að sækja nýtt hráefni.

Því tæknivæddari og flóknari sem vara er því meira hráefni þarf til að framleiða hana og því hlutfallslega minna af hráefninu endar í lokaafurðinni. Til að mynda þarf 1,5 kg af hráefnum til að búa til tannbursta en það þarf 1,5 tonn af hráefnum til að búa til fartölvu. Taka má 32 megabæta tölvukubbur sem dæmi en í hann fara: 
  • 72 kg af kemískum efnum
  • 700 gr af hreinum gastegundum
  • 32 kg af vatni 
  • 1,2 kg af jarðefnaeldsneyti

Allt sem fer óflokkað í ruslatunnuna hjá okkur endar á einn eða annan hátt úti í náttúrunni.  Úrgangur er ýmist brenndur eða brotnar niður á löngum tíma á urðunarstöðum þar sem hann losar kemísk efni af ýmsum toga eða brotnar nær ekkert niður og safnast þá upp í miklu magni. Flokkun og endurvinnsla er því algjört lykilatriði í því að forða hráefnum frá því að verða mengunarþáttur. Það má skipta endurvinnslu í tvennt, það sem hægt er að endurvinna til að framlengja líftíma þess og það sem verður að endurvinna til þess að ekki fari skaðleg efni út í náttúruna. Hvoru tveggja er jafn mikilvægt.

Hvað er hægt að endurvinna?

Endurvinnslutunna

Hægt er að endurvinna langflest það sem við notum á degi hverjum. Ef nefna ætti eitthvað sem ekki er hægt að endurvinna þá væri það til dæmis tyggigúmmí, svampur eða einnota bleyjur. Timbur, plast, gler og pappír missa ekki eiginleika sína þó að við  höfum ekki lengur not fyrir það og  málma er hægt að endurvinna margoft án þess að verðmæti þeirra minnki. Bylgjupappi er einnig mjög hentugur til endurvinnslu en hann er hægt að endurvinna sjö sinnum án þess að hann tapi gæðum.

Sumt af því sem við notum inniheldur skaðleg efni og kallast sá flokkur efna og vöru einu nafni spilliefni. Slíka hluti verður að flokka og skila inn til endurvinnslu því það er einfaldlega bannað að urða þá eða brenna. Þar má nefna rafhlöður og þá sérstaklega stærri rafhlöður, olíumálningu, terpentínu, tjöruleysi, lyf og margt fleira.

Úrgangur er ekki rusl nema óflokkað sé

 Mynd sem fylgir - Rauði listinn

Rauði listinn

Veita þarf ákveðnum friðlýstum svæðum á Íslandi sérstaka athygli og aðhlynningu.
Meira