Einnota plastumbúðir


Drögum úr óþarfa notkun á plasti og plastpokum

Plast var uppgötvað í kringum aldamótin 1900 og varð strax mikilvægur staðgengill fyrir vörur sem gerðar voru úr dýrum s.s. horn, skjalbökuskeljar o.fl. Plast kemur við sögu flestra okkar á hverjum degi og er hluti af nánast öllum okkar daglegum athöfnum, bæði heima við og  í vinnu. Vörur sem auka öryggi okkar eins og öryggishjálmar, öryggisgleraugu, barnabílstólar eru úr plasti en líka vörur sem auðvelda líf okkar eins og drykkjarflöskur, umbúðir utan um matvæli, snyrtivörur, tölvur, farsímar, burðarpokar og margt fleira. Einnig vörur sem hafa skemmtanagildi eins og leikföng, sjónvörp og annað.

Plast er því orðið nánast órjúfanlegur hluti af okkar daglega lífi en því miður er mikið af því óþarfi, sér í lagi einnota plast.

Notkunartími einnota plasts er mjög stuttur því einnota umbúðum er hent um leið og búið er að drekka vatnið, kaffið, borða brauðið, ávextina og fleira. Að meðaltali er talið að hver plastpoki sé notaður í um 25 mínútur og endi síðan í ruslinu eða úti í náttúrunni. Þessi óþarfa notkun á einnota plasti verður til þess að allt of mikið er til af því og það safnast fyrir í umhverfinu og fer að valda skaða á lífríki.

Á Íslandi er magn umbúðaplastúrgangs um 40 kg á hvern íbúa á hverju ári eða alls á Íslandi um 13.000 tonn á ári. Þegar við tölum um umbúðaplast er átt við allt umbúðaplast sem tengist lífi einstaklings, heimili, skóli, vinna. Ekki eru til góðar heildartölur fyrir annað plast sem ekki er skilgreint sem umbúðir og er t.d. í raftækjum, leikföngum, húsgögn og slíkt. Svo þær tölur vantar hér.

Hvað er plast?

Til að framleiða plast eru notuð efni eins og kol, sellulósi, gas, salt og að mestu leyti olía. Eins og svo margt annað sem við erum að nýta frá jörðinni þá eru olíuauðlindir okkar ekki endurnýjanlegar. Sem þýðir að á endanum mun sú auðlind klárast. Talað er um að það þurfi um 2 kg af olíu til að framleiða 1 kg af plasti en það skýtur frekar skökku við að vera að eyða þessari dýru olíuauðlind okkar í efni sem síðan er hent eftir aðeins eina notkun, sér í lagi þegar við erum aðeins að endurvinna um 15% af því.

Eiginleikar plasts eru þannig að endingartími þess er yfirleitt nokkuð mikill, það er slitsterkt svo það hverfur ekki eða eyðist heldur brotnar í smærri og smærri hluta í náttúrunni, kallað örplast. Hluti plasts er létt efni og flýtur sem gerir það að verkum að það getur borist um hundruði kílómetra og valdið þannig skaða langt frá upprunastað sínum. Gríðarstórir flákar af plasti hafa þegar myndast í Kyrrahafi, Atlantshafi og Indlandshafi sem hafstraumar hafa borið þangað. Plastið er síðan fast þar í þessum gríðarstórum hringstraumum sem þar eru. Algengt er að dýr bíti í plastrusl eða nagi það í sundur í smærri hluta. Plast sem fer ekki réttar leiðir til endurvinnslu eða förgunar getur lent úti í náttúrunni (höfum, ám og vötnum) þar sem það getur valdið skaða á lífríki náttúrunnar. 

Áhrif plasts á heilsu, lífríki og umhverfi

Margar rannsóknir hafa verið gerðar á efnum í plasti og áhrifum þeirra á heilsu og umhverfi okkar. Áhyggjur manna eru aðallega tvíþættar: Í fyrsta lagi þá er ýmsum efnum (þalötum (e. phthalates), bisphenol A (BPA) og eldvarnarefnum (PBDEs og TBBPA) bætt út í plastið til að ná fram ákjósanlegum eiginleikum. Við notkun geta efnin losnað úr plastinu og haft skaðleg áhrif á heilsu og umhverfi. Þessi efni eru þrávirk og safnast fyrir í lífverum upp fæðukeðjuna. Rannsóknir hafa sýnt að ákveðin efni úr plasti hafi mögulega hormónaraskandi áhrif. Þalöt sem notuð eru í t.d gólf vínil, matarumbúðir og sjúkragögn hafa fundist í mælanlegu magni í börnum og fullorðnum en talið er að þetta efni geti haft áhrif á þroska kynfæra drengja. Efnið bisphenol A (BPA) sem notað er t.d. í drykkjarflöskur og matarumbúðir getur lekið út í matinn. Efnið er hormónaraskandi og hefur verið tengt við hjartasjúkdóma og sykursýki. Um ákveðin þalöt og BPA efni gilda þó strangar takmarkanir og bönn í dag.  Í svokölluðu PVC-plasti er klór sem gerir það að verkum að bæði framleiðsla þess mengar meira en mörg önnur plastframleiðsla og við brennslu getur myndast díoxín. Það vantar þó fleiri rannsóknir, sér í lagi lýðheilsurannsóknir og rannsóknir á því hvort öll þessi efni geti haft samverkandi áhrif á heilsu og umhverfi okkar.

Í öðru lagi þá loða ýmis eiturefni vel við plast. Rannsókn vísindamanna í Pangea- leiðangrinum sem farinn var frá Bermúda til Íslands í júní 2014, sýndi að sjávardýr og fuglar ruglast oft á þessum plastögnum og mat, sem sást á bitförum á plasti og magainnihaldi dýra. Einnig voru vísbendingar um að tenging sé á milli þess hve mengaðir fiskarnir eru og magni plastrusls í hafinu. Rannsóknir hafa sýnt fram á að ýmis eiturefni geta loðað við plastagnir s.s. DDT, skordýraeitur, úrgangsefni frá bílum, iðnaði og landbúnaði, þessi eiturefni innbyrða dýrin með plastinu sem fer síðan út í vefi og líffæri dýranna. Vegna eiginleika plasts til að fljóta geta eiturefni sem festast við plastið á einum stað borist víða vegu og mengað staði og dýr á fjarlægum stöðum. Líkur eru á að eiturefni sem loða við plast geti borist hærra og hærra upp fæðukeðjuna og að endingu til okkar. 

Plastrusl í hafi getur einnig haft verulegan kostnað í för með sér fyrir útgerðir þegar það festist í veiðarfærum, skrúfum o.s.frv. Til að mynda er talið að um 8% allra plastpoka endi í hafinu og jafngildir það um 5 milljónum plastpoka á Íslandi árlega. Til Hornstranda berst mikið af rekavið frá hafi en í dag rekur þar einnig á fjörur gríðarmikið magn af plastrusli. Þar fer fram árlegt hreinsunarátak sem margir aðilar koma að til að hreinsa rusl úr fjörum í friðlandinu. Varðskipið Ægir flutti til að mynda um 46 rúmmetra af rusli til hafnar á Ísafirði sumarið 2015. Sambærileg hreinsun er nú hafin á ströndum Rauðasands þar sem sjálfboðaliðar og stofnanir taka til höndum. Einnig hafa samtökin Blái herinn staðið lengi fyrir hreinsunum við strandlengjuna.

Það er ekki gott til þess að vita að í íslenskri náttúru sem við viljum kalla ósnortna, séu fleiri tonn af rusli bæði frá Íslendingum og rusl sem borist hefur hingað um óravegu með hafstraumum. Ruslið hefur ekki aðeins slæm áhrif á lífríkið í náttúrunni heldur einnig á ímynd Íslands.

Aðgerðir annarra

Til að stemma stigu við þessari þróun hafa nokkur ríki í Evrópu gripið til úrræða eins og banns eða skattlagningar á notkun plastpoka til að draga úr notkun þeirra og þar með neikvæðum áhrifum þeirra á umhverfið. Í þessu tilliti má sérstaklega benda á Írland, Þýskaland, Holland, Belgíu, Sviss og Ítalíu. Fleiri lönd hafa tekið afstöðu í þessum málum s.s. Rúanda hefur bannað plastpoka allt frá árinu 2008. Hawaii hefur einnig bannað sölu á plastburðarpokum í verslunum.

Hvað hefur verið gert á Íslandi?

 • Samtökin Blái herinn hefur í mörg ár sinnt hreinsunarverkefnum, aðallega við strendur Íslands
 • Verkefnið burðarplastpokalaus Stykkishólmur hófst haustið 2014
 • Plastpokalaust Suðurland (verkefni framhaldsskólanema í FSU) hófst í nóvember 2014
 • Þann 1. júlí 2015 samþykkti Alþingi þingsályktun um að umhverfis- og auðlindaráðherra ætti að finna leiðir til að minnka plastpokanotkun á Íslandi og að aðgerðaáætlun þess efnis eigi að vera tilbúin fyrir 1. nóvember 2015.

Af hverju skiptir þetta mig máli?


 • Af því plast berst í höf eða vötn, skemmir lífríki þar og getur drepið dýr. Dýr festast í plastrusli og hljóta af því ljót sár eða deyja vegna þess að þau geta ekki náð í mat. Dýrin geta líka innbyrt litlar plastagnir sem þau fyrir mistök telja vera mat. Þessar agnir geta stíflað meltingaveg dýra og valdið síðan kvalafullum dauðdaga
 • Plast er að stórum hluta gert úr óendurnýjanlegri auðlind
 • Plast er erfitt að endurvinna
 • Í plasti eru efni eins og þalöt, BPA, brómeruð eldvarnarefni og fleiri sem geta safnast fyrir í náttúrunni og geta hafa slæm áhrif á heilsuna
 • Plast brotnar ekki niður heldur verður að minni og minni ögnum sem veltast um í sjó og vatni
 • Plast í sjó, ám og vatni getur virkað sem flutningstæki fyrir dýr og plöntur milli staða sem geta verið ágengar framandi lífverur á nýja staðnum og valdið þar miklum umhverfisáhrifum og breytingum á lífríki.

Hvað á ég þá að gera?

Eins og áður sagði er plast til margs nýtilegs og er okkur mjög mikilvægt í dag. Það sem við þurfum þó að breyta er að sjá til þess að skaðlegum efnum sé ekki bætt við plast þegar það er framleitt. Við þurfum líka að hætta notkun á einnota plasti, en það er það sem er hvað mest skaðlegt vegna magnsins sem er í umferð, umhverfisáhrifa af framleiðslu þess og stutts líftíma.  Plast er í flestum hlutum sem við notum daglega bæði heima og í vinnu og mjög nytsamlegt. Það er þó alveg hægt að minnka notkun plasts sem er okkur ekki nauðsynlegt með ýmsum ráðum eins og sjá má hér.

Hvað getum við gert í búðinni?

 • Notun fjölnota poka undir allan burð, hvort sem það er undir matvörurnar heim úr dagvöruversluninni, undir lyfin úr apótekinu eða fötin úr tískuvöruversluninni.
 • Notum fjölnota poka undir ávexti/grænmeti og brauð eða sleppum þeim alfarið.
 • Veljum umbúðalausar vörur þar sem það er hægt, svo sem grænmeti í lausu eða þurrvörur sem  hægt er að hella beint í eigið ílát.
 • Taktu með eigin ílát í kjöt- og fiskborð í búðinni

Heima


 • Notum fjölnota matvælaumbúðir t.d. Abeego umbúðirnar sem eru úr náttúrulegum efnum, m.a. býflugnavaxi
 • Notum lífræna poka undir almenna ruslið og til alls þar sem annars væru notaðir plastpokar. Lífrænir pokar eru umhverfisvænni en einnota plastpokar að því gefnu að framleiðsla þeirra hafi í för með sér minni umhverfisáhrif en framleiðsla plastpoka auk þess er ekki ákjósanlegt ef framleiðsla þeirra er í samkeppni við fæðuframleiðslu. Þeir lífrænu pokar sem seldir eru á Íslandi eru taldir standast allar umhverfiskröfur og eru til að mynda unnir úr ýmsum aukaafurðum.
 • Veljum umhverfismerktar vörur (Ecolabel, Svanurinn), það eru vörur sem hafa gengist undir strangar umhverfiskröfur og innihalda ekki örplast
 • Er polyethylene eða PE (polythene) í tannkreminu, húðskrúppnum, sturtusápunni? Finndu þá aðra vöru því þessi inniheldur örplast sem fer beint út í sjó. Með því að velja Svansvottað geturðu verið viss um að varan innihaldi ekki örplast.
 • Búum til eigið umhverfisvænt hreingerningarefni og geymum í glerflöskum eða brúsum sem við getum notað aftur og aftur
 • Kaupum leikföng úr við eða öðrum efnum en plasti eða minna af leikföngum
 • Notum sturtuhengi úr tauefni ekki plasti
 • Notum glerkrukkur til að geyma matvæli – ekki plastumbúðir
 • Kaupum húsgögn og annan heimilisútbúnað úr öðru efni en plasti

Hvað gerum við í vinnunni?

 • Notum ekki einnota umbúðir eða hnífapör fyrir matvæli
 • Kaupum ekki inn í smáumbúðum s.s. undir sykur, mjólk, hunang og annað
 • Pökkum nestinu inn í margnota umbúðir s.s. Abeego umbúðir eða box

Á ferðinni

 • Höfum ferðakönnu fyrir kaffi eða vatnsflösku í töskunni, þá erum við ekki að freistast til þess að kaupa drykki í búðum
 • Tökum með okkur ferðamál fyrir kaffið  
 • Sleppum rörum, þau eru oftar en ekki óþarfi í drykkjum sem við kaupum t.d. á kaffihúsum
 • Tökum til nesti handa okkur og börnunum heima og pökkum inn í margnota umbúðir eða í ílát
Heimildir:
http://journals.plos.org/plosone/article?id=10.1371/journal.pone.0111913 Plastic Pollution in the World's Oceans: More than 5 Trillion Plastic Pieces Weighing over 250,000 Tons Afloat at Sea. Marcus Eriksen, 2014.
http://www.scientificamerican.com/article/plastic-not-so-fantastic/
http://www.news-medical.net/news/20100320/Impact-of-plastics-on-human-health-and-ecosystems.aspx
http://www.unep.org/yearbook/2011/pdfs/plastic_debris_in_the_ocean.pdf
http://pubs.acs.org/doi/pdf/10.1021/es071737s Potential for Plastics to Transport
Hydrophobic Contaminants Environ. Sci. Technol. 2007, 41, 7759-7764
Mynd sem fylgir - Rauði listinn

Rauði listinn

Veita þarf ákveðnum friðlýstum svæðum á Íslandi sérstaka athygli og aðhlynningu.
Meira