Einnota burðarpokar

Þarftu poka? Margnota er málið!

Plast var uppgötvað um 1900 og varð strax að mikilvægu hráefni til hvers kyns notkunar. Kostir þess eru margir en það er til dæmis mjög endingargott og létt í flutningum og hefur aukið verulega mataröryggi síðan það kom á markað. Ókostir notkunar á plasti eru aftur á móti þeir að við skilgreinum það oft sem einnota (t.d. poka, rör, plastglös og aðrar umbúðir). Framleiðsla hefur almennt í för með sér neikvæð umhverfisáhrif sem hámarkast ef við notum hluti aðeins einu sinni. Annar ókostur plasts er hversu erfitt það er í endurvinnslu vegna þess hve margbreytilegt það er. Til að fá fram æskilega eiginleika s.s. styrk, mýkt eða annað þá er ýmsum íblöndunarefnum bætt út í plast sem geta verið skaðleg heilsu fólks og umhverfinu. Plast brotnar einnig afar hægt niður í náttúrunni sem gerir það að verkum að það er hættulegt dýrum sem innbyrða það eða festast í því. Á endanum verður plast síðan að sífellt smærri ögnum, svokölluðu örplasti, sem getur haft mjög neikvæð áhrif á vistkerfi, dýr og menn.

Það er í góðu lagi að kaupa plastpoka endrum og sinnum en við þurfum að hafa í huga að allt sem við gerum og kaupum hefur áhrif á jörðina okkar. Að sleppa því að kaupa poka eða aðrar óþarfa vörur er ein af leiðunum sem við höfum til að draga úr neikvæðum áhrifum okkar.

Samtök verslunar og þjónustu, verslanir og Umhverfisstofnun vinna í sameiningu að verkefni sem felur í sér að verslanir á Íslandi dragi úr sölu á einnota burðarpokum og hvetji notendur til að nota margnota burðarpoka. Markmiðið er að árið 2019 kaupi hver Íslendingur að hámarki  90 stk. af einnota burðarpokum á ári og að árið 2025 verði þeir komnir í aðeins 40 stk. á ári. Tölur eru á reiki um hver eiginleg notkun er í dag en hún liggur einhvers staðar á milli 100 og 200 stk. á ári á hvern íbúa á Íslandi.

Til þess að ná markmiðunum þurfum við öll að draga úr einnota burðarplastpokanotkun og nota frekar það sem við höfum í höndunum s.s. handtöskur, aðra poka eða töskur eða notast við margnota innkaupapoka.

Notum poka og aðra hluti aftur og aftur og aftur og aftur

Það er mikilvægt að við notum þá poka sem til eru aftur og aftur. Það er ekki umhverfisvænt að eiga helling af pokum heima og að þeir séu ekki í notkun. Ef þú ert búin að safna þér upp miklum fjölda af margnota eða öðrum pokum og sérð ekki not fyrir þá á heimilinu, er upplagt að gefa hluta af þeim t.d. til ættingja og vina sem ekki eru byrjaðir að draga úr einnota notkun. Einnig er gott að hafa í huga að plastpoka er líka hægt að nota aftur og aftur.

Algengar spurningar

  • Ef ég kaupi ekki plastpoka, hvað á ég þá að nota undir heimilisúrganginn? Einfalt mál - því meira sem þú flokkar heima hjá þér því færri poka þarftu, því endurvinnsluefni má setja laust í tunnurnar og í gáma á grenndar- og endurvinnslustöðvum. Flestir fá líka óhjákvæmilega alltaf einhverja poka inn á heimilið sem hægt er að nota í staðinn, t.d. brauð- og kartöflupoka, undan fatnaði eða leikföngum. Einnig má benda á að t.d. Reykjavíkurborg leyfir íbúum sínum að setja blandaðan úrgang beint (án poka) í gráu tunnuna en það er svo á ábyrgð íbúa að þrífa tunnurnar reglulega.
  • Ætti ég að nota maíspoka (lífbrjótanlega) poka undir ruslið mitt? Það er í góðu lagi að nota lífbrjótanlega poka undir ruslið EN við bendum á að það er ekki æskilegt að færa eina einnota notkun yfir á aðra einnota notkun.
  • Eru maíspokar (lífbrjótanlegir) ekki verri umhverfislega séð en plastpokar? Það fer að mestu eftir því hvernig lífbrjótanlegir pokar eru framleiddir. Góðir pokar eiga að vera með merkingar á borð við þessar:

    Þannig getum við verið viss um að pokarnir séu framleiddir úr hliðarafurðum, að þeir séu lífbrjótanlegir í náttúrunni og hæfir til moltugerðar.

  • Lífbrjótanlegir pokar eru ekki eins sterkir eða hvað? Lífrænu pokarnir eru sterkari en maður heldur. Handföngin eiga reyndar til að teygjast og þeir virðast eiga auðveldara með að rifna en burðarþolið er engu síður svipað og hjá burðarplastpokum. Vegna þess að þeir eru lífbrjótanlegir þá eiga þeir til að leka ef blautur úrgangur liggur lengi í þeim. Ef við erum meðvituð um bæði kosti og galla þeirra þá er þetta ekkert mál.
  • Lífbrjótanlegu pokarnir eiga það til að fara að leka í tunnunni, hvað geri ég þá? Þetta vandamál getur komið upp hvort sem um ræðir lífræna poka eða plastpoka. Áherslan ætti að vera á að nota poka sem falla til, það getur verið ótrúlegt magn og við förum oft með þá eins og þeir séu einnota. Hér má nefna matvörupoka sem eru skildir eftir, pokar eins og undan kartöflum, brauði og fleira.

    Svo eru líka til fleiri lausnir. Ruslið sem er blautt í tunnunni okkar er matur sem við erum að henda og það fyrsta sem við ættum að gera væri að draga verulega úr matarsóun, molta afganginn eða gefa smáfuglunum afganga.

Fyrir frekari fyrirspurnir eða ábendingar er hægt að hafa samband í gegnum ust@ust.is eða í síma 591-2000.

Frekari upplýsingar fyrir fyrirtæki hér

GrensásvegurGRE_PM10_AV30MINSvifryk13 µg/m³1GrensásvegurGRE_H2S_AV30MINBrennisteinsvetni2 µg/m³1GrensásvegurGRE_NO2_AV30MINNiturdíoxíð7 µg/m³1HvaleyrarholtHVALEYRARH_PM10_AV10MINSvifryk6 µg/m³1HvaleyrarholtHVALEYRARH_H2S_AV10MINBrennisteinsvetni-1 µg/m³1HvaleyrarholtHVALEYRARH_SO2_AV10MINBrennisteinsdíoxíð3 µg/m³1