Sjálfbært samfélag

Lífsstíll og neyslumynstur almennings ráða miklu um stöðu og þróun umhverfismála. Enda þótt athafnir hvers og eins virðist léttvægar hafa þær sameiginlega afgerandi áhrif á umhverfi okkar bæði nær og fjær. Umhverfisvernd er þannig daglegt viðfangsefni hvers og eins, bæði einstaklinga, fyrirtækja og stofnana. Í daglegu lífi tökum við ákvarðanir um innkaup og neyslu sem annað hvort stuðla að sjálfbærri nýtingu auðlinda, draga úr sóun verðmæta og stuðla að minni úrgangi, eða hafa áhrif í gagnstæða átt. Neytendum er vandi á höndum í þessari ákvarðanatöku, en viðurkenndar umhverfismerkingar nýtast vel til að mæta þeim vanda. Norræni Svanurinn er dæmi um slíkt merki, en Svanurinn hefur fyrir löngu skipað sér í hóp virtustu umhverfismerkja í heimi. Umhverfisstofnun sér um Svaninn á Íslandi.

Ákvarðanir framleiðenda og neytenda skipta miklu fyrir sjálfbæra þróun. Stjórnvöld þurfa að aðstoða við þessa ákvarðanatöku og ýta undir ákvarðanir í anda sjálfbærrar þróunar á kostnað hinna sem hafa neikvæð áhrif fyrir komandi kynslóðir. Erfitt getur reynst að bregða mælistiku á árangurinn af þessu starfi, en umfang lífrænnar framleiðslu, útbreiðsla umhverfismerkinga og þekking neytenda á þessu sviði eru meðal þeirra þátta sem gefa vísbendingu um hvert stefnir, eru sæmilega mælanlegir og skipta máli fyrir framtíðina.

Markmið

  • Gera upplýsingar um umhverfismál aðgengilegar almenningi og hagsmunaaðilum og gera þeim þannig kleift að hafa áhrif á umhverfi sitt
  • Umhverfismerkingar leiði innkaup almennings og fyrirtækja

Sjálfbærnivísar

  • Fjöldi Svansleyfa
  • Þekking á umhverfismerkjum
  • Lífræn ræktun
Graf sem sýnir fjölda Svansleyfa fyrir tímabilið 1996 til 2011Neytendur geta stuðlað að sjálfbærri þróun og minnkað umhverfisálag í daglegu lífi á ýmsan hátt, t.d með því að kaupa umhverfisvænar vörur, spara orku og auka nýtni (kaupa endingargóðar vörur, endurnota og skila til endurvinnslu). Sömuleiðis geta framleiðendur lagt mikið af mörkum með því að bjóða gæðavöru sem hefur sem minnst neikvæð áhrif á umhverfið. 

Umhverfismerkingar eru einfalt tæki til að tengja þetta tvennt saman, þ.e. annars vegar ábyrga og meðvitaða framleiðslu og markaðssetningu umhverfisvænnar vöru og þjónustu, og hins vegar ábyrgar og meðvitaðar ákvarðanir um kaup á vöru og þjónustu. Íslensk stjórnvöld vinna með stjórnvöldum hinna Norðurlandanna að vexti og viðgangi norræna umhverfismerkisins Svansins. Þess vegna gefur fjöldi íslenskra Svansleyfa góða vísbendingu um þróun þessara mála hérlendis. Á árinu 2008 setti Umhverfisstofnun sér það markmið að fjórfalda fjölda leyfishafa, en þeir voru þá fjórir. Nú hillir undir að þetta markmið náist.

Graf fyrir þekkingu á Svansmerkinu

Heimild: Umhverfisstofnun
Graf sem sýnir hlutfall lífræns vottaðs lands af öllu landbúnaðarlandi

Í lífrænum búskap er gætt að umhverfis- og dýraverndarsjónarmiðum og stefnt að sjálfbærri framleiðslu landbúnaðarafurða. Aðeins eru notuð vistvæn varnarefni og náttúrulegur áburður, auk þess sem gerðar eru kröfur um rekjanleika í úrvinnslu o.m.fl. Að liðnum tilteknum aðlögunartíma er hægt að fá lífræna vottun á landið og afurðirnar, en slík vottun staðfestir að öll skilyrði lífrænnar framleiðslu séu uppfyllt, eins og þau eru skilgreind í íslenskum og evrópskum reglugerðum. Vottunarstofan Tún annast eftirlit með lífrænni framleiðslu og vottun hérlendis og hefur til þess alþjóðlega faggildingu og sérstakt leyfi stjórnvalda. Hlutfall vottaðs lands af heildarflatarmáli landbúnaðarlands er góður mælikvarði á þróun lífrænnar framleiðslu. 

Þetta hlutfall hefur lengi verið mun lægra hér en í nágrannalöndunum, en á síðustu árum hefur orðið töluverð breyting á þessu, einkum við það að stór óræktuð svæði hafa verið vottuð fyrir söfnun landjurta í lífræna framleiðslu. Stærsta breytingin í þessa átt varð á árinu 2007. Hér er gengið út frá því að heildarflatarmál landbúnaðarlands á Íslandi sé 1,5 milljónir hektara, en þar er átt við allt gróið land neðan við 200 m hæðarlínu. Áhugavert væri að nota markaðshlutdeild lífrænt vottaðrar framleiðslu sem mælikvarða, en afar erfitt er að afla frumgagna um það atriði.

Heimild: Vottunarstofan Tún ehf.

Rauði listinn

Rauði listinn

Veita þarf ákveðnum friðlýstum svæðum á Íslandi sérstaka athygli og aðhlynningu.
Meira