Varnir gegn mengun frá skipum

Almennt gildir að losun mengandi efna og úrgangs frá skipum í mengunarlögsögu Íslands er óheimil. Heimilt er þó að losa efni í samræmi við ákvæði í 8. gr. laga nr. 33/2004 um varnir gegn mengun hafs og stranda (sjá nánar hér: http://www.althingi.is/lagas/nuna/2004033.html). Þá skal gæta ákvæða þeirra viðauka við MARPOL samninginn sem Ísland hefur staðfest, þ.e.  viðauka við alþjóðasamning um varnir gegn mengun frá skipum frá 1973 eins og honum hefur verið breytt með bókunum frá 1978 (MARPOL 73/78). Ísland hefur staðfest viðauka I um varnir gegn olíumengun frá skipum, viðauka II um flutning á eitruðum efnum í fljótandi formi sem flutt eru í geymum skipa, viðauka II um flutning á hættulegum efnum sem flutt eru í umbúðum eða lausum geymum og gámum og viðauka V um varnir gegn sorpmengun frá skipum. Á Íslandi eru engin skip skráð sem falla undir gildissvið viðauka II og viðauka III við MARPOL samninginn.

Losun olíu í hafið frá skipum, svo og frá pöllum og öðrum mannvirkjum, hvort sem er beint eða óbeint, er óheimil á hafsvæði innan þriggja sjómílna frá grunnlínu landhelginnar, nema um sé að ræða olíublandað vatn sem leiðir af eðlilegum rekstri. Olíumagn blöndunnar við útrás skal að hámarki vera 15 hlutar í 1.000.000 hlutum blöndunnar (15 ppm).

Ísland hefur staðfest viðauka I við MARPOL samninginn um varnir gegn olíumengun frá skipum, en þar er að finna ákvæði um skoðanir skipa, útgáfu alþjóðlegs olíumengunarvarnaskírteinis (IOPP),  losun olíu í sjó utan og innan sérhafsvæða, olíusíubúnað, olíudagbók o.fl. Ákvæði viðaukans gilda um sérhvert olíuflutningaskip, sem er 150 brúttótonn eða stærra, og hvert það skip, annað en olíuflutningaskip, sem er 400 brúttótonn eða stærra. Auk þess eru í gildi íslensk sérákvæði fyrir skip sem eru minni en 400 brúttótonn, sjá nánar reglugerð nr. 715/1995 um varnir gegn mengun sjávar frá skipum.

Sérhvert olíuflutningaskip, sem er 150 brúttótonn eða stærra, og sérhvert skip, annað en olíuflutningaskip, sem er 400 brúttotonn eða stærra, skulu búin „Olíudagbók, hluta I (Aðgerðir í vélarúmi)“. Sérhvert olíuflutningaskip, sem er 150 brúttótonn eða stærra, skal einnig búið „Olíudagbók, hluta II (Meðhöndlun farms og kjölfestu)“. Skrá skal aðgerðir í vélarúmi í olíudagbók, hluta I, í samræmi við 17. reglu í I. viðauka við MARPOL samninginn og í olíudagbók, hluta II, samkvæmt 36. reglu I. viðauka við MARPOL samninginn.

Umhverfisstofnun gefur út olíudagbækur fyrir íslensk skip og er hægt að nálgast eintak af þeim í afgreiðslu stofnunarinnar.

Orðatiltækið „lengi tekur sjórinn við“ er vel þekkt frá fyrri tíð, en mönnum er orðið ljóst að losun úrgangs í hafið hefur skaðleg áhrif á lífríki þess. Ekki síst hafa komið í ljós skaðleg áhrif plasts í hafi sem ekki eyðist heldur brotnar sífellt niður í smærri einingar, auk þess sem skaðleg efni geta loðað við plastagnirnar og þannig dreifst um hafið. Dýr geta flækst í plastúrgangi, s.s. í netum eða plastpokum, en þau taka einnig plast í misgripum fyrir fæðu. Því hafa verið settar reglur sem banna eða takmarka losun úrgangs í hafið.

Samkvæmt lögum nr. 33/2004 um varnir gegn mengun hafs og stranda er óheimilt að losa sorp og farmleifar frá skipum á hafsvæði innan tólf sjómílna frá grunnlínu landhelginnar. Óheimilt er að losa í hafið þrávirk gerviefni sem fljóta eða mara í hafinu. Heimilt er að losa kvarnaðan matarúrgang utan þriggja sjómílna frá landi.

Óheimilt er að brenna úrgang eða önnur efni á hafi úti. Heimilt er þó að brenna eigið sorp í þar til gerðum ofnum í samræmi við reglur Alþjóðasiglingastofnunarinnar (IMO) þar sem tekið skal tillit til ákvæða í gildandi samningum um brennslu úrgangsefna á hafi úti og þeirra áhrifa sem brennslan hefur á umhverfið.

Ísland hefur staðfest viðauka V við MARPOL samninginn, en sá viðauki fjallar um varnir gegn sorpmengun frá skipum. Samkvæmt ákvæðum viðaukans er reglan sú að bannað er að losa úrgang í hafið nema það sé heimilt skv. 4., 5. og 6. gr. viðaukans. Alfarið er bannað að losa plastefni í sjó, þ.m.t. kaðla, net, sorppoka úr plasti og ösku úr sorpofnum ef brennd hafa verið plastefni. Einnig er bannað að losa olíu til matargerðar í sjó.  Undantekningar gilda ef losun er nauðsynleg vegna öryggis skips eða þeirra sem eru um borð, losun leiðir af skemmdum á skipi eða tækjum þess eða fiskinet úr gerviefnum tapast vegna óhappa. Ávallt skal þó grípa til allra þeirra varrúðarráðstafana sem með sanngirni krefjast má til að koma í veg fyrir slíka losun.  

 Hér er að finna yfirlit yfir ákvæði um losun úrgangs í hafið í viðauka V við MARPOL samninginn.

Um borð í sérhverju skipi sem er 400 brúttótonn eða stærra og í sérhverju skipi sem er skráð til að flytja 15 manns eða fleiri, skal vera sorpdagbók. Skal sorpdagbókin vera samkvæmt þeirri fyrirmynd sem mælt er fyrir um í viðbæti við V. viðauka MARPOL-samningsins. Umhverfisstofnun gefur út sorpdagbók fyrir íslensk skip og er hægt að nálgast eintak af henni í afgreiðslu stofnunarinnar.

Sérhvert skip með mestu lengd 12 metra eða meira skal hafa uppi veggspjöld sem upplýsa áhöfn og farþega um þær kröfur sem gerðar eru vegna losunar sorps. Veggspjöldin skulu vera á íslensku. Þegar um er að ræða skip sem ætluð eru til siglinga milli landa skulu veggspjöldin einnig vera á ensku.

Óheimilt er að losa skolp frá skipum og óvinnsluhæfan rekstrarúrgang innan tólf sjómílna frá landi, sbr. 8. gr. laga nr. 33/2004 um varnir gegnun mengun hafs og stranda. Heimilt er að losa skolp, sem hefur verið meðhöndlað í hreinsikerfi samþykktu af Samgöngustofu eða sambærilegu stjórnvaldi annars ríkis, utan fjögurra sjómílna frá landi.

Losun kjölfestuvatns er óheimil innan mengunarlögsögu Íslands. Losun kjölfestuvatns innan mengunarlögsögunnar er þó heimil eftir að það hefur verið meðhöndlað í samræmi við kröfur í 7. gr. reglugerðar nr. 515/2010 um kjölfestuvatn, þ.e. meðhöndlað samkvæmt staðli D1 (útskolun) eða D2 (hreinsun) í OSPAR-leiðbeiningum og/eða BWM-samningi (alþjóðasamningi um stjórnun og meðhöndlun á kjölfestuvatni skipa og botnfalli í því).

Skipstjóra hlutaðeigandi skips er jafnframt heimilt að losa kjölfestuvatn utan 50 sjómílna frá landi að því tilskildu að dýpi sé meira en 200 metrar, ef aðstæður leyfa ekki losun kjölfestuvatns utan mengunarlögsögu vegna siglingaleiða, veðurs eða annarra aðstæðna á sjó. Skipstjóri hlutaðeigandi skips skal hafa samráð við varðstjóra í stjórnstöð Landhelgisgæslu Íslands áður en kjölfestuvatn er losað innan mengunarlögsögu og fá heimild til undanþágu að uppfylltum framangreindum skilyrðum.

Skipstjóri hlutaðeigandi skips ber ábyrgð á því að losun kjölfestuvatns sé í samræmi við gildandi lög og reglur, að réttur búnaður sé fyrir hendi og að áhöfn hafi verið þjálfuð til þess að framkvæmd verði fumlaus. Skipstjóra ber að tilkynna alla losun kjölfestuvatns innan mengunarlögsögu Íslands til varðstjóra í stjórnstöð Landhelgisgæslu Íslands.

Við losun á kjölfestuvatni skal gætt fyllsta öryggis og hafa til hliðsjónar OSPAR-leiðbeiningar og/eða IMO-leiðbeiningar þar að lútandi.

Skip skulu halda kjölfestudagbók og skal hún vera aðgengileg eftirlitsaðilum. Um borð í skipum skal vera kjölfestuáætlun.

Á vefsíðu IMO er að finna nánari upplýsingar um BWM samninginn (http://www.imo.org/en/About/Conventions/ListOfConventions/Pages/International-Convention-for-the-Control-and-Management-of-Ships'-Ballast-Water-and-Sediments-(BWM).aspx

Á vefsíðu GloBallast má meðal annars finna leiðbeiningar IMO varðandi kjölfestuvatn og ýmsar upplýsingar tengdar kjölfestuvatni (http://globallast.imo.org/).

Hafnaryfirvöldum er skylt að koma upp viðunandi aðstöðu fyrir móttöku úrgangs og farmleifa frá skipum og skal aðstaðan miðast við þarfir skipa er jafnan koma í viðkomandi höfn. Skipstjóri skips, sem er á leið til hafnar ber ábyrgð á að tilkynning um úrgang og farmleifar í skipum sé fyllt út með réttum upplýsingum og komið til viðkomandi hafnaryfirvalda:

   a. með 24 klukkustunda fyrirvara áður en komið er til hafnar ef viðkomuhöfn er þekkt; eða
   b. um leið og viðkomuhöfn er ákveðin ef 24 klukkustunda fyrirvari næst ekki; eða
   c. áður en lagt er úr fyrri höfn ef sjóferðin er skemmri en 24 klukkustundir.

Þessar tilkynningar ber að senda til hafnaryfirvalda hvort sem ætlunin er að skila úrgangi í land í viðkomandi höfn eða ekki.

Tilkynningarskyldan á ekki við um fiskiskip eða skemmtibáta sem mega ekki flytja fleiri en 12 farþega.

Athugasemdum um ófullnægjandi móttökuaðstöðu í höfnum má koma á framfæri við Umhverfisstofnun með því að fylla út þar til gert eyðublað.

Sérstök reglugerð hefur verið sett um umskipun olíu á rúmsjó og skal fara að ákvæðum hennar sé ætlunin að umskipa olíu, sjá ákvæði reglugerðar nr. 800/2004 um umskipun olíu á rúmsjó.

Við umskipun olíu á rúmsjó skal gætt fyllsta öryggis og og bera skipstjórar hlutaðeigandi skipa ábyrgð á því að umskipun sé í samræmi við gildandi lög og reglur, að réttur búnaður sé fyrir hendi og að áhafnir hafi verið þjálfaðar til þess að framkvæmd verði fumlaus.

Óheimilt er að umskipa olíu á rúmsjó ef hætta er á að umskipun geti misfarist eða óhöpp orðið vegna utanaðkomandi aðstæðna.

Tilkynna ber stjórnstöð Landhelgisgæslu Íslands um sérhverja umskipun olíu á rúmsjó með minnst sex klst. fyrirvara. Í tilkynningu skal tiltaka staðsetningu, kallmerki og nöfn viðkomandi skipa, tímasetningu umskipunar og þann tíma sem áætlað er að umskipun taki. Landhelgisgæsla Íslands skal skrá slíkar tilkynningar og senda Umhverfisstofnun árlega. Telji Landhelgisgæsla Íslands að umskipun olíu geti stofnað lífríkinu í hættu vegna veðurs á svæðinu, ónógs búnaðar eða af öðrum ástæðum er henni í samráði við Umhverfisstofnun heimilt að banna eða stöðva umskipun.

Verði óhapp við umskipun olíu á rúmsjó skal tafarlaust tilkynna um það til stjórnstöðvar Landhelgisgæslu Íslands í samræmi við viðbragðsáætlun um olíuóhöpp.

Skipstjóri ber ábyrgð á að sérhver umskipun olíu á rúmsjó sé færð í olíudagbók skipsins í samræmi við ákvæði viðauka I við MARPOL-samninginn.

Umskipun olíu er óheimil allt árið á eftirtöldum svæðum, nema með leyfi Umhverfisstofnunar og að fenginni umsögn sjávarútvegsráðuneytisins:
1. Innan svæðis sem afmarkast af neðangreindum hnitum:

 

1.

Frá Gerpi (65°00'N – 13°30'V)

 

2.

64°30'N – 12°00'V

 

3.

63°45'N – 14°00'V

 

4.

63°00'N – 17°00'V

 

5.

63°00'N – 24°00'V

 

6.

65°30'N – 26°30'V

 

7.

66°45'N – 24°00'V

 

8.

Að Straumnesi (66°28'N – 23°08'V)

2. Innan svæðis sem afmarkast af landhelgi Íslands frá Straumnesi austur að Gerpi.

Svæði þar sem umskipun olíu er óheimil nema með sérstöku leyfi stjórnvalda

Mynd sem fylgir - Rauði listinn

Rauði listinn

Veita þarf ákveðnum friðlýstum svæðum á Íslandi sérstaka athygli og aðhlynningu.
Meira